Metfjöldi á vel heppnuðu Norðurálsmóti á Akranesi


Rétt um 1500 keppendur á aldrinum 5-8 ára tóku þátt á vel heppnuðu Norðurálsmóti á Akranesi. Knattspyrnufélag ÍA stendur að þessum viðburði og var mótið í ár það 35. í röðinni.

Í ár var boðið upp á nýjan keppnishóp þar sem að keppendur á aldrinum 5-6 ára léku listir sínar. Það mót var klárað á einum degi og tóku um 300 keppendur þátt á því móti. ‘

Mikil og góð stemning einkenndi mótið – en skipulag mótsins tókst vel þrátt fyrir að óvissa hafi verið um framkvæmd mótsins allt fram í byrjun maí vegna samkomubanns vegna Covid-19.

Hlini Baldursson, verkefna – og skrifstofustjóri KFÍA segir í viðtali við Stöð 2 að framkvæmdin hafi gengið vonum framar.

„Mótshaldið hefur verið aðlagað eins og kostur er að leiðbeiningum yfirvalda um sóttvarnir,“ segi Hlini m.a.

Um 1200 keppendur voru í aldursflokknum 7-8 ára og samtals voru því um 1500 keppendur. Að sögn Hlina er það jöfnun á metfjölda frá því fyrra þegar 1500 keppendur voru á Norðurálsmótinu.

„Norðurálsmótið er skipulagt á forsendum iðkenda með það í huga að allir séu með í leiknum til þess að skapa jákvæða og skemmtilega upplifun barna sem eru að stíga sín fyrstu skref í fótbolta,“ segir Hlini ennfremur.