Írskir dagar fara fram með breyttu sniði dagana 2.-5. júlí


Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu munu fjölmennustu viðburðirnir á Írskum dögum 2020 vera með breyttu sniði eða falla niður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Írskir dagar fara nú fram í 21. skiptið. Sem fyrr verður dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi dagana 2.-5. júní.

Meðal fastra liða má nefna grillveislu Húsasmiðjunnar, karnival á Merkurtúni, götugrillin, Helgasund, sandkastalakeppni, hálandaleikana og Leikhópinn Lottu en að þessu sinni verða tvær sýningar í Garðalundi á sunnudeginum.

Ókeypis er á sýningar Lottu en vinsamlega athugið að til þess að tryggja að fjöldi gesta sé innan marka sóttvarnaryfirvalda þurfa einstaklingar fæddir árið 2004 og fyrr að nálgast miða á sýninguna dagana 1.-3. júlí á Bókasafni Akraness milli kl. 12-18.

Á laugardeginum verður nýr snjallsímaratleikur um Akranes tekinn í gagnið. Leikurinn verður áfram opinn öllum en frá kl. 10 verða veitt þátttökuverðlaun við lokastopp leiksins á meðan birgðir endast. Annað á dagskrá í ár er hindrunarbraut við Kirkjubraut, froðurennibraut, töfraskóli, vatnaboltar, veltibíll, listsýningar og ýmislegt fleira.

Þá verða veitt verðlaun fyrir mest skreyttu götuna og ekki má gleyma valinu á rauðhærðasta íslendingnum. Skráning er á [email protected] en þar er jafnframt tekið við skráningum á útimarkað og fyrir þau götugrill sem óska eftir óvæntri heimsókn.

Óvæntir atburðir geta alltaf sett strik í reikninginn og dagskráin tekið breytingum. Nýjustu upplýsingar verður ávallt að finna á skagalif.is og á Fésbókarsíðu Írskra daga.