Útivistargildi Garðalundar aukið enn frekar með hreyfistöðvum


Garðalundur er einn fjölsóttasti útivistarstaður Akraness. Þar er hægt að stunda fjölbreytta hreyfingu. Útivistargildi skógræktarinnar hefur nú verið aukið enn frekar. Þar er tvinnað saman góðum æfingum og útivist í fallegu umhverfi.

Nýverið voru settar upp ellefu „Hreyfistöðvar“ í Garðalundi og er markmiðið að stuðla að aukinni hreyfingu þeirra sem leggja leið sína á útivistarsvæðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Á hverri hreyfistöð er upplýsingaskilti sem veitir skýrar og góðar leiðbeiningar um æfingar sem hægt er að gera á hverri stöð.

Anna Sólveig Smáradóttir og Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, sjúkraþjálfarar settu æfingarnar upp og eiga þær að henta öllum aldri.

Með Hreyfistöðvum í Garðalundi er útivistargildi skógræktarinnar aukið enn frekar og er þar tvinnað saman góðum æfingum og útivist í fallegu umhverfi.

Verkefnið er samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalags Akraness og var umsjón með verkefninu í höndum Hildar Karenar Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra ÍA.