Kraftmikið þróunarfélag sett á laggirnar á Akranesi – Breiðin vaknar til lífsins á ný


Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um nýtt þróunarfélag á Akranesi. Akraneskaupstaður í samvinnu við Brim höfðu frumkvæði að stofnun þess. Félaginu er ætlað að efla atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Breið á Akranesi.

Fjölmenni var við undirritunina í dag í húsnæð Brims við Bárugötu þar sem áður voru höfuðstöðvar HB&Co á Akranesi. Þar á meðal var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands. Þórdís, sem er fædd á Akranesi, er verndari verkefnsins.

Fjölmargir aðilar koma að þessu þróunarfélagi. Atvinnu – og nýsköpunarráðuneytið, Álklasinn, Brim, Fasteignafélagið Hús ehf., Fjölbrautaskóli Vesturlands, Háskóli Íslands, Landbúnarháskóli Íslands, Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi, Þróunarfélagið á Grundartanga, Akraneskaupstaður, Breið Þróunarfélag, Coworking Akranes, Faxaflóahafnir, Háskólinn á Bifröst, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Matís og Skaginn 3X.

Unnið hefur verið að þessu verkefni allt frá því s.l. haust í samstarfi við KPMG ráðgjöf sem leiddi stefnumótunarvinnu og mótun framtíðarsýnar fyrir svæðið með þátttöku íbúa og ýmissa hagaðila.

Hér má sjá myndband og myndasyrpu frá athöfninni þegar þróunarfélagið var stofnað.