Eyleifur fékk æðsta heiðursmerki danska sundsambandsins


Eyleifur Ísak Jóhannesson fékk í gær æðsta heiðursmerki danska sundsambandsins. Eyleifur hefur á undanförnum 13 árum náð frábærum árangri sem sundþjálfari hjá Aalborg Svømmeklub þar sem hann hóf störf í ágúst árið 2007.

Eyleifur Ísak var í mars s.l. ráðinn sem yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands.

Í gær fór fram kveðjuathöfn hjá Aalborg Svømmeklub honum til heiðurs. Að því tilefni fékk Eyleifur heiðursmerkið afhent. Það var Stine Simone Sørensen stjórnarmaður í danska sundsambandinu sem afhenti heiðursmerkið.

Sørensen sagði m.a. í ræðu sinni að Eyleifur hefði náð frábærum árangri sem þjálfari. Sundfólk undir hans stjórn hafa unnið til verðlauna öllum stóramótum sundíþróttarinnar, Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum.

„Það er enginn vafi á því að þú gefur þig í verkefnin og árangurinn sýnir það og sannar að það sem þú leggur áherslu á er að virka. Undir þinni stjórn hefur Aalborg Svømmeklub komist í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði,“ sagði Sørensen m.a.

Eyleifur er fæddur á Akranesi árið 1971. Hann var í fremstu röð á landsvísu sem keppnissundmaður áður en hann hóf þjálfaraferilinn. Foreldrar hans eru Drífa Garðarsdóttir og Jóhannes Eyleifsson sem eru búsett á Akranesi. Systkini Eyleifs eru Garðar, Linda og Lovísa.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/03/12/eyleifur-radinn-sem-yfirmadur-landslidsmala-hja-sundsambandi-islands/