Arnór Sigurðsson, leikmaður CSKA Moskva í Rússlandi, er ánægður með Ísak Bergmann Jóhannesson hjá sænska liðinu Norrköping. Arnór segir í Twitterfærslu sinni að það sé geggjað að sjá Ísak spila, hann hentar liðinu fullkomnlega og Arnór spáir Norrköping sigri í sænsku deildarkeppninni.
Eins og áður hefur komið fram hefur Ísak Bergmann látið vita af sér í síðustu leikjum sænska úrvalsdeildarliðsins. Hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í síðustu umferð og hann gaf tvær stoðsendingar í fyrsta byrjunarliðsleik sínum.
Þess má geta að Ísak Bergmann leikur í treyju nr. 27 hjá Norrköping líkt og Arnór Sigurðsson gerði á sínum tíma hjá liðinu.
Ísak Bergmann er að feta sömu leið og Arnór Sigurðsson gerði á sínum tíma sem ungur leikmaður hjá Norrköping. Arnór var keyptur til Norrköping frá ÍA í mars árið 2017 þegar hann var 17 ára gamall. Hann lét að sér kveða með Norrköping og var keyptur fyrir metfé í ágúst 2018 af CSKA Moskvu.
Ísak Bergmann og Oliver Stefánsson voru keyptir af Norrköping í desember 2018. Ísak er fæddur árið 2003 en Oliver árið 2002. Ísak var því aðeins 15 ára gamall þegar hann var keyptur til sænska liðsins.