Kvikmyndahátíðin Iceland Documentary Festival – Icedocs verður haldin í annað skipti á Akranesi dagana 15.-19. júlí. Þar verða sýndar heimildamyndir frá öllum heimshornum samhliða viðburðadagskrá með spurningakeppni, jóga og tónleikum í Akranesvita.
Frítt er á flestar sýningarnar í Bíóhöllinni á Akranesi en hægt er að kaupa passa sem veitir frekari aðgang að lokuðum viðburðum og dagskrá á netinu.
Meira en tuttugu myndir verða sýndar á hátíðinni og þar má meðal annars nefna Banksy: Most Wanted, portrett um huldulistamanninn fræga, Marshawn Lynch: A History um NFL-stjörnuna sem kaus að þegja til að mótmæla kynþáttamisrétti og Forman vs. Forman sem fjallar um lygilegan feril tékkneska kvikmyndaleikstjórans Milos Forman.
Meðal tónlistarmanna sem koma fram í vitanum eru Matthildur, Between Mountains og Sólveig Matthildur úr Kælunni miklu, auk Bretans Will Carruthers sem lék á bassa með hinum áhrifamiklu skógláps- og síkadelíusveitum Spacemen 3 og Spiritualized.
Einnig verður sérstök dagskrá tileinkuð íslenskum brautryðjendum á fimmtudeginum en þá verður sýnd myndin Björgunarafrekið á Látrabjargi eftir Óskar Gíslason, en var ljósmyndari og frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð. Kvikmyndasafn Íslands hefur unnið að endurgerð myndarinnar. Hún fjallar um björgunaraðgerðir bænda þegar togarinn Dhoon strandaði undir Geldingsskorardal í miklu óveðri þann 12. desember 1947, en myndin kom út 1949.