Siglingafélag Akraness, Sigurfari, stendur fyrir áhugaverðu námskeiði fimmtudaginn 23. júlí. Á því námskeiði geta áhugasamir fengið tilsögn og upplýsingar um það helsta sem viðkemur „Sit on Top“ kayökum. Guðmundur Benediktsson, formaður Sigurfarar, segir að slíkir bátar séu mjög hentugir til veiða og styttri ferða á góðum dögum.
„Okkur finnst við ekki sjá notkun á þessum bátum í samræmi við fjölda. Við viljum fá sem flesta á sjó en grunar að einhverjir séu hikandi við að taka skrefið vegna þess að þeir telja sig ekki búa yfir nægilegri kunnáttu eða reynslu. Það er engin ástæða til að láta það stöðva sig því að slíkt kemur með ástundun,“ segir Guðmundur.
Hann bendir á að það sé mikilvægt að vera rétt útbúinn og geta lesið í aðstæður, veðurfar og sjólag.
„Náttúran hér við Akranes býður upp á frábærar aðstæður til að stunda kayaksportið, hvort sem fólk vill veiða eða skoða, og við viljum hvetja bátaeigendur til að róa, við Langasand, í Krókalóni, við Elínarhöfða og víðar. Möguleikarnir eru fjölmargir og allir í túnfætinum.“
Fimmtudaginn 23. júlí verður boðið upp á stutt námskeið sem hefst kl. 19.00 og er það í umsjón Gísla J. Guðmundssonar eða„Gísla Rakara“. Mæting við sjósetningarrampinn niðri við Akraneshöfn.
„Gísli er hafsjór af reynslu, bæði í búnaði og sjóferðum. Við viljum benda á að ekki þarf að fara langt til að fjárfesta í búnaði því að hér i bæ er verslunin Ósinn www.osinn.net sem selur kayaka og það sem tilheyri,“ segir Guðmundur Benediktsson formaður Sigurfara.