Valdís Þóra glímir við meiðsli og bíður niðurstöðu frá sérfræðingum


Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni, hefur ákveðið að taka sér stutt hlé frá keppnisgolfinu á meðan hún bíður eftir niðurstöðum frá sérfræðingum vegna bakmeiðsla sem hún hefur glímt við í nokkur misseri.

Valdís Þóra hefur verið að kljást við óþægindi í bakinu og tók hún sér frí vegna þessara meiðsla fyrr í sumar.

„Þetta virðist ætla vera heldur þrálátt og því miður er ég farin að nálgast þolmörk mín varðandi verki. Við höfum því tekið þá ákvörðun að hvíla og komast til sérfræðinga til að skoða þetta betur. Þetta virðist liggja mjög djúpt inn í síðunni og erfitt að komast að þessu til að meðhöndla þetta.
Við erum að vona að þetta séu bara álagsmeiðsli sem krefjast einungis minniháttar inngrips en það kemur betur í ljós á komandi dögum/vikum.
Staðan er hreinlega sú að við erum að velja skárri kostinn af tveimur illum með því að hvíla núna. Verkefni mín erlendis eru mér mikilvæg og teljum við því að tíminn til að komast að botns í þessu sé núna en ekki seinna á árinu til þess að ég eigi sem bestan möguleika á að komast inn á Ólympíuleikana ‘21. Ég vona að þið sýnið þessu skilning og við munum gera allt í okkar valdi til þess að ég komist aftur á völlinn sem fyrst.“