„Nú er allt að komast í gang hjá okkur á Smiðjuloftinu fyrir haustið. Það verður ýmislegt í boði tengt klifri og tónlist á haustönninni og mælum við með að áhugasamir kíki á Facebook síðuna okkar til að skoða næstu viðburði,“ segir Valgerður Jónsdóttir við skagafréttir.is.
Smiðjuloftið var opnað á vormánuðum 2018 og hefur frá þeim tíma verið framarlega í flokki þegar kemur að viðburðum og afþreyingu fyrir Skagamenn og gesti.
Klifurfélag ÍA er með aðstöðu í Smiðjuloftinu og eiginmaður Valgerðar, Þórður Sævarsson, hefur rifið upp þá íþrótt með miklum dugnaði á undanförnum árum.
„Klifuræfingar hjá Klifurfélagi ÍA eru komnar í gang og skráning hafin í klifur fyrir fullorðna sem og Kátt í klifri fyrir yngstu þátttakendurna sem hefst 12. september.“
Tónlistin skipar stóran sess í dagskrá Smiðjuloftsins en Valgerður starfar einnig sem tónlistarkennari.
„Tónlistarnámskeið fyrir 3-5 ára byrjar 6. september og á haustmánuðum verða einnig í boði örnámskeið í Tón- og leiklistarblöndu fyrir 3. – 7. bekk. Nánar auglýst síðar. Fjölskyldutímarnir vinsælu byrja aftur sunnudaginn 6. september frá kl. 11-14. Þá er hægt að bóka barnaafmæli og heimsóknir lítilla hópa hjá okkur.“
Valgerður segir að miklar ráðstafanir séu gerðar á Smiðjuloftinu vegna Covid-19.
„Við tökum sóttvarnir vegna Covid 19 mjög alvarlega og erum með ákveðnar reglur varðandi heimsóknir til okkar á Smiðjuloftið. Nánari upplýsingar um þær reglur er að finna í Facebook viðburðum hjá okkur og uppfærslur detta reglulega inn.
Stundataflan hjá okkur er þétt en við höfum sett inn tvo daga þar sem hægt er að mæta án þess að panta eða skrá sig. Það er á fimmtudögum kl. 17.30-21.30 og á sunnudögum kl. 11-16 (Fjölskyldutími 11-14).“
Smiðjuloftið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að halda nokkra menningarviðburði á árinu.
„Það er enn óljóst hvenær af þeim getur orðið vegna Covid, en við sjáum hvað setur og hlökkum til þegar það verður mögulegt.. Við hlökkum til að sjá ykkur á Smiðjuloftinu,“ segir Valgerður.