„Kjúklinga Pad Krapow“ er vinsæll réttur á heimili Sævars Freys


Bæjarstjóri Akraness ríður á vaðið í nýjum fréttaflokki á skagafrettir.is. Markmiðið er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

„Þetta er mjög vinsæll réttur á heimilinu en ég fletti upp uppskrift að honum sumarið 2018 þegar fótboltastrákunum var bjargað úr hellinum í Taílandi. Í einni fréttinni kem fram að Pad Krapow með kjúklingi var það fyrsta sem þeir báðu um að borða og ákvað ég að elda þennan rétt þeim til heiðurs daginn sem þeim var bjargað. Þessi réttur með salati dugar auðveldlega fyrir fjóra,“ segir Sævar Freyr Þráinsson.

Sævar Freyr skorar á Ástþór Vilmar Jóhannsson að taka við keflinu og koma með næstu uppskrift en verkefnið er hluti af „Heilsueflandi Samfélagi“ á Akranesi.

Kjúklinga Pad krapow

Hráefni (mæli með að gera hráefni tilbúið fyrirfram því það tekur bara um 12-15 mín að elda):

3 til 4 msk olía

3 chilli fræ hreinsuð og skorin í sneiðar (ég skar smátt. (hef fræin af einu chilli með til að hafa hann bragð sterkari)

3 skallottulaukar, skornir í þunnar sneiðar (ég skar smátt)

5 hvítlauksrif skorin í þunnar sneiðar

600-700 gr kjúklingalæri beinhreinsuð án skinns (set í matvinnsluvél og tæti kjúkling niður í hakk) Ekki henda kjúklingafitu hún bráðnar og gefur bragð)

1 msk sykur (pálma/kókossykur ef til)

3 msk soyasósa

1 1/2 msk fiskisósa

1/2 bolli kjúklingasoð (ég hitaði vatn í örbylgju og leysti upp 1/2 tening)

1 búnt Thai basil lauf (má sleppa og hefur ekki mikil áhrif á réttinn eða nota ferskt venjulegt. Thai basil er til í asísku búðunum í Rvk).

Leiðbeiningar:

Sjóðið hrísgrjón á meðan. Hæfilegur skammtur fyrir fjóra ættu að vera 3 bollar af grjónum. Þarf töluvert með þessum rétt.

Setja stóra pönnu á hæsta hita, bætið við olíu, chilli, skallottulauk og hvítlauk, og steikið í 1-2 mínútur þar til búið að mýkjast og jafnvel farið að brúnast lítillega í endum. Bætið við kjúklinga ”hakkinu” og steikið í um 5 mín þar til farið að brúnast lítillega. Tryggið að kjúklingurinn loði ekki saman og reynið að brjóta niður stærri bita.

Bætið við sykur, soyasósu, og fiskisósu. Steikið í aðra mínútu og jafnvel lengur þar til soð hefur að mestu horfið. Bætið þá út í kjúklingasoði og eldið áfram þar til mest af soðinu er horfið og farið að hjúpa kjúklinginn. Þetta á ekki að taka langan tíma 5-7 mín því pannan er á hæsta hita. Bætið við basil laufum og steikið í stutta stund þar til þau hafa visnað og blandast réttinum.

Berið fram með ríflegu magni af hrísgrjónum í skál þar sem hver og einn bætir ofan á réttinum og soyasósu að smekk hvers og eins.

Pad krapow með hrísgrjónum án salats stendur vel undir væntingum. Ef eldað er fyrir fleiri þá er auðvelt að tvöfalda allt í réttinum en gera þarf ráð fyrir lengri tíma í að sjóða niður vökva.

Asískt salat

70 gr jöklasalat skorið smátt.
70 gr rauðkál skorið í þunnar ræmur.
1/2 appelsínugul papríka (eða rauð eða gul) skorin í þunnar sneiðar.
50 gr gulrætur rifnar eða sneiddar þunnt.
1 vorlaukur skorin í þunnar sneiðar.
1 msk steinselja skorin smátt.
80 gr edamame baunir (fást frosnar belg hreinsaðar í flestum búðum nú orðið).
1 /2 tsk ferskt engifer saxað smátt.
1 hvítlauksrif saxað smátt.
1/2 msk soya sósa.
1 msk hlynsíróp (eða hunang).
1 msk hrísgrjóna edik (eða sítrónusafi).
1 msk extra virgin olívu olía.
1/2 msk ristuð sesam olía.
1 msk sesam fræ (má sleppa).

Leiðbeiningar:

Allt skorna hráefnið sett í skál og blandað vel saman. Fljótandi hráefnum blandað saman og svo sett út í salatskálina og öllu velt saman.

Kær kveðja, Sævar Freyr Þráinsson.