Mikil aukning í Covid-19 smitum á síðustu tveimur dögum á Íslandi


Nítján kórónuveirusmit greindust hér á landi síðasta sólarhringinn. Þetta segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Frá 9. apríl á þessu ári hafa ekki fleiri greinst með veiruna á einum sólarhring en þann 9. apríl greindust 27 með Covid-19 veiruna. Tölurnar verða uppfærðar á covid.is kl. 11 í dag.

Thor sagði í viðtalinu að hann hefði töluverðar áhyggjur af stöðunni.

„Ef faraldurinn væri í eðlilegum gangi hefði ég búist við minna. Ég hefði getað verið rólegur með svona átta, níu. En nítján, nei. Þá er eitthvað á seyði,“ sagði Thor.

Í fyrradag greindust þrettán einstaklingar með Covid-19 og hafa því samtals 32 greinst með Covid-19 á undanförnum tveimur dögum.