Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu náði frábærum úrslitum í kvöld gegn sterku liði Svía í undankeppni Evrópumótsins.
Ísland, sem Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson þjálfar, lék sinn besta leik í langan tíma og átti bronsliðið frá síðasta HM í töluverðum vandræðum með lið Íslands í síðari hálfleik.
Svíar komust yfir í fyrri hálfleik en Ísland jafnaði í þeim síðari. Elín Metta Jensen skoraði mark Íslands. Í fyrri hálfleik var mark dæmt af íslenska liðinu og var dómurinn umdeildur.
Í síðari hálfleik fékk íslenska liðið nokkur góð færi til að bæta við sigurmarkinu. Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir, sem leikur með liði Vals, átti m.a. skot í þverslá beint úr hornspyrnu í síðari hálfleik.
víar enduðu í þriðja sæti á síðasta Heimsmeistaramóti og liðið hefur lítið breyst frá þeim tíma.
Í undankeppni Evrópumóts kvennalandsliða kemst aðeins eitt lið beint upp úr riðlinum inn í lokakeppnina. Það var því mikið í húfi fyrir bæði lið í kvöld.
Þrjú bestu liðin í öðru sæti undanriðlanna fá einnig sæti á EM sem fram fer á Englandi.
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði Íslands, jafnar landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur í dag með A-landsliði kvenna. Sara Björk leikur sinn 133. landsleik í dag.
Staðan og úrslit úr F-riðli er hér:
Jón Þór Hauksson var ánægður með leikmenn Íslands og hrósaði liðinu fyrir frábæra baráttu og liðsheild. Skagamaðurinn segir í viðtali við visir.is að hann hafi verið hundfúll að landa ekki sigri í þessum mikilvæga leik.
„Ég veit það ekki. Hundfúll að hafa ekki unnið þennan leik. Hrikalega stoltur af leikmönnum liðsins, innan vallar sem utan. Frammistaðan frábær hjá okkur í dag. Við erum hundfúl að hafa ekki unnið þennan leik. Úrslitin eru góð. Svíar eru með frábært lið og við megum vera hreykin og stolt af frammistöðunni í dag. Við byrjuðum leikinn sterkt en svo kom 20 mínútna kafli í fyrri hálfleik þar sem við duttum of langt niður og gáfum eftir of auðveldlega. Þegar við náðum svo tökum á því fannst mér við með yfirhöndina í leiknum,“ sagði Jón Þór um leik dagsins í viðtali við visir.is.