Hákon Arnar Haraldsson fagnaði í kvöld bikarmeistaratitli með liði sínu FCK frá Kaupmannahöfn í flokki 19 ára og yngri. Skagamaðurinn efnilegi var í byrjunarliði FCK og skoraði þriðja mark liðsins í 3-1 sigri gegn Nordsjælland.
Hákon Arnar lagði upp annað mark FCK í leiknum. Hann gekk í raðir FCK sumarið 2019. Hann er fæddur árið 2003 og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Knattspyrnan skipar stóran sess í fjölskyldu Hákons. Foreldrar hans eru Haraldur Ingólfsson og Jónína Víglundsdóttir, sem bæði léku með A-landsliði Íslands.
Eldri systkini Hákons Arnars hafa einnig látið að sér kveða með ÍA líkt og foreldrarnir. Tryggvi Hrafn leikur með liði ÍA í PepsiMax deildinni og Unnur Ýr er einnig lykilmaður i liði ÍA í Lengjudeild kvenna.