Góður sigur hjá Kára á erfiðum útivelli við krefjandi aðstæður


Lið Kára gerði góða ferð norður á Dalvík í gær þegar liðið sótti þrjú stig á erfiðum útivelli gegn sameiginlegu liði Dalvíkur/Reynis í 2. deild karla í knattspyrnu.

Aðstæður voru krefjandi á gervigrasvellinum á Dalvík. Kalt í veðri, úrkoma og töluverður vindur. Heimamenn komust yfir með marki á 4. mínútu.

Elís Dofri Gylfason jafnaði fyrir Kára á 18. mínútu og hinn þaulreyndi Jón Vilhelm Ákason kom Kára yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Það reyndust lokatölur leiksins.

Með sigrinum er Kári í 8. sæti deildarinnar af alls 12 liðum. Kári er með 22 stig og framundan eru fimm leikir á lokaspretti mótsins.

Dalvík/Reynir er í neðsta sæti deildarinnar með 10 stig en fallbaráttan sem er framundan verður spennandi þar sem að Víðir, Völsungur og Dalvík/Reynir berjast um að halda sæti sínu í deildinni.

Næsti leikur Kára er gegn Fjarðabyggð í Akraneshöllinni sunnudaginn 27. september. Á þeim leik verður allavega boðið upp á toppaðstæður hvað varðar úrkomu og vind.