Nóg um að vera hjá Valgerði – tónleikar framundan og hljómplata endurútgefin á Spotify


Það er nóg um að vera hjá tónlistarkonunni Valgerði Jónsdóttur um þessar mundir. Framundan eru tónleikar í Vinaminni á vegum Kalman-listafélagsins og tónlistin af barnadiski sem Valgerður gaf út árið 2010 er nú aðgengileg á tónlistarveitunni Spotify.

„Yfirskrift tónleikanna sem verða í Vinaminni er „Tónar og ljóð“ og þar verða flutt ýmis lög sem ég hef samið á síðustu árum í bland við íslensk þjóðlög. Einnig verður frumflutt lag mitt við ljóðið „Vorið“ eftir Brynju Einarsdóttur, skáld frá Akranesi,“ segir Valgerður en hún fær góðan stuðning úr ýmsum áttum á þessum tónleikum.

„Fjölskyldan mín kemur að þessu með mér, þau Þórður og Sylvía dóttir okkar. Arnar Óðinn Arnþórsson, Sveinn Rúnar Grímarsson og Sveinn Arnar Sæmundsson organisti koma einnig að þessu með okkur,“ bætir Valgerður við en hún bendir á að vegna Covid-19 verður takmarkaður sætafjöldi. „Við bendum áhugasömum á að fylgjast vel með tilkynningum vegna Covid-19 ráðstafana inni á viðburðinum. Sjá hér.

Eins og áður segir er tónlistin af barnadiskinum „Völuskrín–glens og grín“ komin út á Spotify.

„Þessi tónlist hefur fallið vel í kramið hjá krökkunum gegnum árin og veit ég um nokkur dæmi þess að hún hafi bjargað bílferðum hjá börnum sem finnst leiðinlegt að sitja lengi í bíl.“

„Ég gaf diskinn fyrst út árið 2010 en hann inniheldur lög og texta eftir mig í bland við þekktar perlur. Ég hef notað þessa tónlist mikið í kennslu með leikskólabörnum og yngstu nemendum í grunnskóla og eins miðlað efninu til starfsfólks í leik- og grunnskólum á námskeiðum sem ég býð upp á.

Ég hef alltaf verið mjög stolt af þessari plötu því ég útsetti lögin sjálf og tók þau upp heima í stofu.

Ég fékk hjálp frá nokkrum fjölskyldumeðlimum við söng og hljóðfæraleik og Flosi Einarsson vann svo hljóðið fyrir mig til útgáfu. Þessi tónlist hefur fallið vel í kramið hjá krökkunum gegnum árin og veit ég um nokkur dæmi þess að hún hafi bjargað bílferðum hjá börnum sem finnst leiðinlegt að sitja lengi í bíl. Þannig að ég mæli með að foreldrar finni Völuskrínið inni á Spotify og hlusti með krökkunum,“ segir Valgerður að lokum.

Smelltu hér eða á myndina til að hlusta á „Völuskrín-glens og grín“