„Það er hægt að nota ýsu eða þorsk í réttinn sem nýtur vinsælda á okkar heimili. Þetta er einfaldur réttur og sósan gerir fiskréttinn að sælkerarétti,“ segir Ástþór Vilmar Jóhannsson sem tók áskorun frá Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra fagnandi. Bæjarstjóri Akraness reið á vaðið í nýjum fréttaflokki á skagafrettir.is. með uppskrift að áhugaverðum kjúklingarétti.
Markmiðið með þessum fréttaflokki er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.
Fiskur hefur verið mikilvæg fæða á Íslandi frá upphafi byggðar og fáar þjóðir borða jafnmikinn fisk og við Íslendingar. Neysla Íslendinga á fiski hefur samt sem áður minnkað á undanförnum árum. Ástþór Vilmar Jóhannsson vill stuðla að breytingum á því sviði með þessari frábæru uppskrift af steiktum fiski með súrsætri sósu.
Fiskur er ákjósanleg fæða fyrir margra hluta sakir. Má þar nefna að í fiski er gæðaprótein, neysla á fiski getur dregið úr offitu, fiskur er næringarrík fæða og tvímælalaust ein sú hollasta matvara sem völ er á. Fisk ættum við ekki að borða sjaldnar en 3 sinnum í viku.
Ástþór Vilmar skorar á Ingu Dóru Jóhannsdóttur, systur sína, að taka við keflinu og koma með næstu uppskrift áður en langt um líður.
Pönnusteikt ýsa/þorskur með súrsætri sósu
Hráefni:
600 gr. Ýsa eða þorskur
Hveiti
1-2 egg
Salt
Pipar
Matarolía eða smjör til steikingar
Sósa:
½ l vatn
100gr.sykur
9 msk vínedik
1 msk tómatkraftur
3 msk sojasósa
Maizena-sósu jafnari
100gr sveppir
1 græn paprika
1 rauð paprika
100 gr Laukur
100 gr blaðlaukur
100 gr ananasbitar
- Skerið fiskinn í bita og setjið til hliðar
- Setjið vatn,sykur,edik,tómatkraft og soyasósu í pott. Hleypið upp suðu og þykkið með maizena-sósujafnara.
- Skerið sveppi,lauk,blaðlauk í sneiðar og papriku í strimla(ekki of fínt)
- Brúnið sveppi,lauk, blaðlauk,papriku,og ananasbita í matarolíu og bætið út í sósuna. Sósan þarf ekki að sjóða mikið.
- Hrærið eggin saman og kryddið hveitið með salti og pipar. Veltið fiskinum fyrst upp úr hveitinu og síðan egginu.
- Steikið fiskinn í olíu eða smjöri og rétturinn er tilbúinn.
Meðlæti:
Berið réttinn fram með hrísgrjónum eða kartöflum.
Þessi sósa er einnig sérlega ljúffeng með steiktu kjöti.