Nóg um að vera í fótboltanum á Akranesi – þrír leikir framundanÞað er nóg um að vera í fótboltanum á Akranesi næstu daga. Þrír leikir eru á dagskrá á Akranesi á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Í dag kl. 17:30 tekur kvennalið ÍA á móti efsta liði Lengjudeildarinnar, Tindastól frá Sauðárkrók, en leikurinn fer fram í Akraneshöllinni. ÍA er öruggt með sæti í Lengjudeildinni á næsta tímabili en Tindastóll hefur tryggt sér keppnisrétt í efstu deild á næsta tímabili.

Á laugardag tekur lið Kára á móti Njarðvíkingum í 2. deild karla. Leikurinn fer fram í Akraneshöllinni. Njarðvík er í baráttunni um efstu sætin en Kári er í sjötta sæti og gæti með sigri þokað sér enn hærra á töflunni.

Á sunnudaginn tekur karlalið ÍA á móti liði FH – og hefst leikurinn kl. 14:00 á Akranesvelli. ÍA er í sjöunda sæti deildarinnar en FH er í harðri baráttu um Evrópusæti og er í öðru sæti deildarinnar.