Stay West óskar eftir frestun á leigugreiðslumÁ síðasta fundi bæjarráðs var samþykkt erindi frá fyrirtækinu Stay West varðandi rekstur gistiheimilisins Kirkjuhvols.

Húsið er í eigu Akraneskaupstaðar og hefur Stay West verið með gistiheimili í húsinu undanfarin ár.

Í erindi Stay West var óskað eftir því að leigugreiðslum yrði frestað út árið 2020 og að væntanlegt uppgjöf taki mið af tekjum rekstraraðilans á tímabilinu.

Valgarður Lyngdal Jónsson (Samfylking) og Elsa Lára Arnardóttir (Framsókn og Frjálsir) samþykktu að fela bæjarstjóra útfærslu á samkomulagi við rekstraraðilann – sem taki til þessa óska. Rakel Óskarsdóttir (Sjálfstæðisflokkur) er á móti afgreiðslu málsins. Rakel segir í samtali við Skagafréttir að það sé ótrúlegt að bæjaryfirvöld vilji sýna fram á svona fordæmi með slíkum ívilnunum til fyrirtækja í samkeppnisrekstri – þó svo að samkeppnin sé lítil í gistibransanum.

Það má því búast við umræðum um þetta mál á næsta fundi bæjarstjórnar Akraness þar sem að lokaákvörðun um málið fer fram.