Bjarni Ólafsson veiðir vel af kolmunna„Þetta hefur gengið tiltölulega vel. Um er að ræða stóran kolmunna, en í þessum túr var aflinn síldarblandaður. Við fengum töluvert af síld í einu holinu,“ segir Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK 70 í viðtali á fésbókasíðu Síldarvinnslunnar. Bjarni Ólafsson kom til hafnar í Neskaupstað nýverið og landaði þar tæplega 1.800 tonnum af kolmunna.

Runólfur segir að veiðarnar hafi farið fram út af Héraðsflóa og í Seyðisfjarðardýpi alveg út við kant.

„Það voru 56 mílur í Norðfjarðarhorn þegar við hættum veiðum. Aflinn fékkst í sjö holum. Stærsta holið gaf um 300 tonn og hið minnsta um 200. Kolmunninn sést varla á mæli, hann sést einungis sem afar dauft ryk. Einungis er veitt á daginn en á nóttunni dreifir fiskurinn sér og fer upp í sjó og þá þýðir ekkert að eiga við hann. Auðvitað er mikilvægt að kolmunni veiðist í lögsögunni og það er þægilegt að eiga við þetta í blíðuveðri eins og verið hefur,“ bætir Runólfur við.