Alls fengu ellefu staðbundnir fjölmiðlar styrk úr byggðaáætlun. Mennta – og menningarmálaráðherra veitir styrkinn en samkvæmt byggðaáætlun er gert ráð fyrir að veita árlega 5 milljónum kr. til að efla staðbundna fjölmiðla, samtals 25 milljónum kr. á fimm árum. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.
„Staðbundnir fjölmiðlar tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um samfélagsmál í sínu nærumhverfi og styðja þannig við lýðræðisþátttöku og menningarstarf með mikilvægum hætti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Auglýst var eftir styrkjum í júlí og bárust alls 11 umsóknir. Allir umsækjendur eru skráðir fjölmiðlar hjá fjölmiðlanefnd og hafa þeir staðið að reglubundinni útgáfu á þessu ári og umfjöllunarefni og fréttir eru að jafnaði frá afmörkuðu landsvæði. Allar umsóknir voru því teknar til greina.
Eftirtaldir fjölmiðlar hlutu styrk að upphæð 455.000 kr. hver:
Ásprent Stíll
Björt útgáfa
Eyjasýn
N4
Prentmet Oddi
Skessuhorn
Steinprent
Tunnan prentþjónusta
Úr vör
Útgáfufélag Austurlands
Víkurfréttir