Skrifstofa Akraneskaupstaðar verðlaunuð sem „Stofnun ársins 2020“ hjá Sameyki



Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, veitti í gær verðlaun fyrir stofnanir ársins 2020. Verðlaunin eru veitt út frá niðurstöðum úr stærstu vinnumarkaðskönnun á Íslandi. Skrifstofa Akraneskaupstaðar fékk verðlaun sem „Stofnun ársins 2020“ í flokki stofnana með 50 starfsmenn eða færri.

Í febrúar á ári hverju er lögð fyrir félagsmenn Sameykis tvískipt könnun sem snýr að vali á stofnun ársins annars vegar þar sem starfsmenn meta frammistöðu stofnunar. Hins vegar er það launakönnun sem veitir innsýn í þróun launa og launamun kynjanna.

Stofnanir ársins 2020 eru Norðlingaskóli, Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Jafnréttisstofa. Hástökkvarar ársins eru Umhverfis-og skipulagssvið og Sjálfsbjargarheimilið.

Titlana „Stofnun ársins“ og „Fyrirmyndarstofnun“ hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna í könnun Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, var ánægður með niðurstððuna í færslu sem hann skrifaði á fésbókarsíðu sína.

Stoltur bæjarstjóri í dag. Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar er í fyrsta sæti sem stofnun ársins í flokki minni stofnanna árið 2020. Síðustu tvö ár vorum við í öðru sæti þa þetta er mjög ánægjulegt á þessum sérstöku tímum. Við erum um 40 samstarfsmenn en í ár var viðurkenningin tilkynnt í beinni útsendingu á netinu. Sérstakt en í takt við tímanna nú en dregur ekkert úr ánægjunni. Stofnun ársins er valin í stærstu vinnumarkaðskönnun á Íslandi og er því ástæða til að fagna sérstaklega. Vinn með mögnuðu metnaðarfullu fólki, sem er annt um vellíðan samstarfsmanna og hefur sterkan vilja til að auka lífsgleði íbúa Akraness. Læt fylgja með mynd frá því í fyrra er hluti okkar mætti í flottan viðburð. Hef alltaf verið stoltur af því að vera Skagamaður en birti á ný mynd sem ég setti saman fyrir rúmu ári hvað mælingar eru að sýna að við erum að búa til frábært samfélag á Akranesi. Áfram Akranes.

Könnunin náði til um 12 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og gefur mikilvægar upplýsingar um töðu starfsmanna á vinnumarkaði. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur til að gera vel í starfsmannamálum og að auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.


Eftirfarandi stofnanir hljóta titilinn Stofnun ársins og Stofnun ársins – borg og bær en þeim er skipt niður eftir stærð stofnunarinnar.

Stofnun ársins 2020 – borg og bær
Norðlingaskóli (50 starfsmenn eða fleiri)
Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar (Færri en 50 starfsmenn)

Hástökkvari ársins 2020
Umhverfis-og skipulagssvið Reykjavíkurborgar 

Stofnun ársins 2020 – ríki, sjálfseignarstofnanir o.fl.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands (Fleiri en 50 starfsmenn)
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (20–49 starfsmenn)
Jafnréttisstofa (Færri en 20 starfsmenn)

Hástökkvari ársins 2020
Sjálfsbjargarheimilið


Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu óskar starfsmönnum og stjórnendum innilega til hamingju með glæsilegan árangur og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar