„Ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri og það traust sem félagið sýnir mér. Framundan er skemmtilegur tími þar sem ég fæ tækifæri að æfa með meistaraflokki ÍA,“ segir Ísak Örn Elvarsson við Skagafréttir eftir að hann samdi við Knattspyrnufélag ÍA til tveggja ára.
Ísak Örn er fæddur árið 2002 og hefur hann leikið með yngri flokkum ÍA og æft samkvæmt uppeldisstefnu Knattspyrnufélags ÍA.
Ísak Örn hefur leikið ýmsar stöður á ferlinum með yngri flokkum ÍA, mest sem framherji og einnig sem varnarmaður. Hann hefur leikið í hjarta varnarinnar með 2. flokki ÍA á þessari leiktíð.
„Það er undir mér komið að nýta þau tækifæri sem bjóðast og ég hlakka til að mæta á hverja einustu æfingu. Ég var lengi frá vegna meiðsla sem ég varð fyrir í byrjun árs 2018. Ég gat ekki spilað fótbolta í tvö ár en ég nýtti tímann vel til að byggja mig upp og ég stefndi alltaf á að koma enn sterkari til baka. Ég hef æft mjög mikið undanfarin tvö ár og sú vinna skilaði sér að lokum. Tímabilið 2020 með 2. flokki í sumar er það fyrsta hjá mér síðan sumarið 2017. Það var virkilega góð tilfinning sem fylgdi því að fara í gula búninginn og takkaskó loksins þegar biðin var á enda. Þessi tími utan vallar hefur verið lærdómsríkur, og tekið mikið á andlegu hliðina. Ég lít á þetta allt saman sem lífsreynslu. Eftir þetta allt saman þá er mottóið hjá mér að fara í hvern einasta leik til þess að njóta þess að spila á ný og gera mitt allra besta,“ segir Ísak Örn Elvarsson.