Ísak Bergmann er „sultuslakur“ yfir áhuga stórliða í EvrópuÍsak Bergmann Jóhannesson hefur vakið mikla athygli á undanförnum mánuðum sem leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping. Knattspyrnumaðurinn ungi frá Akranesi er aðeins 17 ára gamall en hann hefur nú þegar stimplað sig inn í byrjunarlið Norrköping í sterkri deild. Og þar að auki hefur hann verið orðaður við mörg stórlið Evrópu.

Ísak Bergmann er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir alla þá athygli sem hann fær um þessar mundir. Í viðtali við Skagafréttir segir Ísak Bergmann að hann stefni á ná meiri stöðugleika í sænsku deildinni áður en hann tekur næsta skref á ferlinum.

Ertu nú þegar á þeim stað á ferlinum að þú teljir það rétt að taka næsta skref – eða langar þig að þroskast enn frekar fá meiri reynslu hjá Norrköping áður en það gerist?

„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir tækifærin sem ég hef fengið hjá Norrköping. Bæði sem leikmaður og sem einstaklingur. Ég hef þroskast mikið og þróast í rétta átt sem leikmaður og vonandi líka sem persóna. Eins og staðan er núna þá hef ég ekkert á móti því að vera áfram hér í Norrköping. Að mínu mati er þetta einn besti staðurinn til að vera á fyrir unga leikmenn. Ég er á góðum stað núna en ég vil láta enn meira að mér kveða í þessari deild áður en ég fer á næsta stig á ferlinum. Það geta allir verið góðir í einum leik en ég er að leita eftir meiri stöðugleika yfir lengri tíma hjá mér.“

„Eins og staðan er núna þá hef ég ekkert á móti því að vera áfram hér í Norrköping. Að mínu mati er þetta einn besti staðurinn til að vera á fyrir unga leikmenn“

Ísak Bergmann hefur á undanförnum vikum verið orðaður við mörg stórlið Evrópu, þar á meðal ensku liðin Manchester United, Liverpool og Juventus á Ítalíu. Skagamaðurinn segir að öll þessi athygli trufli hann ekki neitt.

„Ég er alveg hreinskilinn þegar ég segi að þetta truflar mig ekki neitt. Ég er alveg sultuslakur yfir þessu öllu. Ég hef undirbúið mig fyrir svona hluti, hvort sem þeir eru neikvæðir eða jákvæðir. Það sem skiptir mig máli er hvað fólkið sem stendur mér næst er að segja. Fjölskyldan og þjálfari. Það sem skrifað er um mig í fréttum eða er á samfélagsmiðlum skiptir mig litlu máli, þannig hefur það verið, og þannig mun það verða áfram.“

Ísak Bergmann ólst upp hjá ÍA sem knattspyrnumaður eftir að fjölskyldan flutti frá Englandi. Eins og gefur að skilja var knattspyrnan ávallt efst á listanum hjá Ísak þegar hann var að alast upp – og í raun komst fátt annað að.

„Ég var mikið að spá í að vera eins mikið í fótbolta og hægt var. Fyrir skóla, eftir skóla, fyrir æfingu eða eftir æfingu. Það var það eina sem komst að hjá mér. Þegar maður er ungur á maður bara að reyna að hafa gaman af því að spila eins mikið og maður getur. Þegar ég var 10 ára eða í 5. flokki fór ég að setja mér markmið. Stóra markmiðið var að gerast atvinnumaður – og allt sem ég gerði eftir það var miðað að því. Það dugir ekki að segja bara að maður ætli sér að verða eitthvað. Það þarf að setja sér mörg lítil markmið á leiðinni og vinna að þeim. Smátt og smátt kemst maður nær stóra markmiðinu sem er á veggnum. Akranes er frábær fyrir ungt fólk sem vill ná langt í hverju sem er. Það er frábær aðstaða út um allt, ég sakna þess oft að komast ekki á Jaðarsbakkasvæðið. Einnig sakna ég oft að hitta ekki vini mína og fjölskyldu.“

Ísak Bergmann er fæddur árið 2003 og er því 17 ára gamall. Hann segir að þa sé erfitt fyrir hann að gefa öðrum ráð – þar sem hann hafi ekki öðlast mikla reynslu enn sem komið er.

„Það er kannski erfitt fyrir mig að gefa ungu fólki ráð þar sem ég hef ekki öðlast mikla reynslu enn sem komið er. Ég er bara rétt nýbyrjaður og á eftir að læra svo mikið sjálfur. En ég hef lært það nú þegar að það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér – og ekki láta neinn segja þér að þú getir ekki gert eitthvað. Vinnusemi er einn mikilvægasti þátturinn. Það er ekki nóg að hafa hæfileika. Til að ná langt þarf að leggja mikið á sig og velja það sem skiptir máli fyrir íþróttina. Ég hef sleppt því að gera allskonar hluti til þess að undirbúa mig fyrir næsta verkefni í fótboltanum. Það er einnig mikilvægt að einbeita sér að þeim hlutum sem þú hefur stjórn á – það sem þú hefur ekki stjórn á skiptir því ekki máli. Ég reyni alltaf að gera betur í dag en í gær – verða betri með hverjum deginum sem líður.“

Norrköping er í öðru sæti deildarinnar með 40 stig en Malmö er í efsta sæti með 50 stig. Það eru fimm umferðir eftir og næsti leikur hjá Ísak Bergmann og félögum er gegn Elfsborg um næstu helgi.

„Það eru hörkuleikir framundan en við erum 10 stigum á eftir Malmö sem er í efsta sætinu. Við ætlum að gefa allt í þetta á lokakaflanum og sjá hverju það skilar okkur. Mikilvægast er að geta gengið frá tímabilinu án þess vera með eftirsjá að hafa getað gert betur á einhverjum sviðum. Markmiðið er að vinna hvern einasta leik sem eftir er og sjá hverju það skilar,“ segir Ísak Bergmann Jóhannesson við Skagafréttir.