Í morgun var tilkynnt að fyrirtækið Skaginn 3X og stórfyrirtækið Baader hafi ákveðið að sameina krafta sína á næsta ári, með fyrirvara um samþykki þar til bærra eftirlitsstofnana.
Baader mun eignast meirihluta í fyrirtækinu en Ingólfur Árnason verður áfram forstjóri Skaginn 3X. Um 1500 starfsmenn verða hjá fyrirtækjunum eftir sameininguna.
Baader er alþjóðlegt fyrirtæki með um 100 ára sögu að baki. Fyrirtækið er í fremstu röð þegar kemur að hönnun tækja fyrir matvælaiðnað. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í yfir 100 löndum og sex heimsálfum.
Bæjarstjórn Akraness og Ísafjarðar sendi í morgun eftirfarandi yfirlýsingu vegna samrunans en fyrirtækin verða með starfssstöðvar á báðum stöðum.
Um afar ánægjulegar fréttir er að ræða, ekki síst á þeim sérstöku tímum sem nú blasa við í íslensku samfélagi og heimsbyggðinni allri.
Skaginn 3X er með starfsstöðvar bæði á Akranesi og Ísafirði. Á sameiginlegum fundi í gærkvöldi fengu bæjarfulltrúar sérstaka kynningu á þessum áformum frá Ingólfi Árnasyni forstjóra Skaginn 3X og nokkrum lykilstarfsmönnum.
Ljóst er að í samrekstri Skaginn 3X og Baader felast mikil tækifæri til að vaxtar með aukinni framleiðslu afurða fyrirtækisins og sölu þeirra. Þá er ljóst að einnig felast í þessu tækifæri til að stórefla rannsókna og þróunarstarf til hagsbóta fyrir starfsfólk og íslenskt samfélag.
Einhugur er meðal bæjarfulltrúa um að fylgja fyrirtækjunum í þessari vegferð enda er fyrirtækið Skaginn 3X með sterkar rætur í báðum bæjarfélögum.
Ástæða er til að fagna þessum tímamótum og óska fyrirtækinu og bæjarbúum til hamingju með áfangann og þessi merku tíðindi.