Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar eru veitt ár hvert í tengslum við Vökudaga.
Hjónin Margrét Þorvaldsdóttir og Kristján Kristjánsson, sem hafa gefið út Árbók Akurnesinga allt frá árinu 2001, fá verðlaunin í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingum eða félagasamtökum sem hafa skarað fram úr á einhverju sviði menningar hér í bæjarfélaginu.
Þetta er í fjórtánda sinn sem verðlaunin eru afhent og að þessu sinni fór athöfnin fram við óhefðbundnar aðstæður.
Eins og áður segir hefur Árbók Akurnesinga komið út óslitið ár hvert frá árinu 2001. Ritið samanstendur að greinum og viðtölum þar sem efnistök eru margvísleg, bæði frá liðnum tímum og nútíma, og tengjast Akranesi eða Akurnesingum með einum eða öðrum hætti.
Ár hvert eru fréttaannáll, íþróttaannáll og æviágrip látinna Akurnesinga jafnframt meðal efnisatriða. Ritin geyma ómetanlegar heimildir fyrir komandi kynslóðir og má nefna að hægt er að leita í efnistökum ritanna á leitir.is.
Eftirtaldir aðilar hafa fengið
menningarverðlaun Akraness
- 2019 Útvarp Akranes
- 2018 Ásmundur Ólafsson
- 2017 Guðbjörg Árnadóttir
- 2016 Club 71
- 2015 Vitinn, félag áhugaljósmyndara á Akranesi
- 2014 Heiðrún Hámundardóttir tónmenntakennari
- 2013 Guðmundur Sigurðsson hagleiks- og hugsjónamaður
- 2012 Vinir hallarinnar fyrir menningar- og listalíf
- 2011 Lárus Sighvatsson fyrir starf sitt sem skólastjóri Tónlistarskólans
- 2010 Flosi Einarsson tónlistarmaður
- 2009 Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness
- 2008 Bókaútgáfan Uppheimar
- 2007 Haraldur Sturlaugsson og Ingibjörg Pálmadóttir vegna Haraldarhúss