Gullið tækifæri mætir viljaleysi meirihlutans


Aðsend grein frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins:

Bruninn í Fjöliðjunni á Akranesi í maí á síðasta ári varð öllum íbúum bæjarins mikið áfall ekki síst þeim er þangað sóttu sína vinnu. Þar sem skemmdir af völdum brunans urðu miklar varð strax ljóst að grípa yrði skjótt til bráðabirgðaráðstafana svo tryggja mætti hið gefandi starf er þar fer fram. Það tókst þegar samningar náðust um leigu á öðru húsnæði til starfseminnar. Þar með tókst einnig að skapa bæjarstjórn nauðsynlegt andrými til þess að ákveða hvernig haga skyldi uppbyggingunni. 

Þrátt fyrir að hús Fjöliðjunnar hafi á sínum tíma verið sérhannað til starfseminnar sem hófst 1989, hafa þarfir og  aðstæður breyst umtalsvert á þeim 30 árum sem síðan eru liðin. Að auki hafði komið upp mygluvandamál í húsnæðinu sem ekki hafði verið komist fyrir. Eldsvoðinn og önnur ógn við þennan vinnu- og hæfingarstað skapaði hins vegar tækifæri til þess að rýna alla þætti starfseminnar og móta uppbygginguna að þörfum nútímans og lengri framtíðar.

Fyrsta skref bæjarstjórnar var loksins tekið í upphafi árs 2020, þegar hún tók einróma ákvörðun um að starfsemin yrði áfram á lóðinni að Dalbraut 10. Í kjölfarið var settur á fót starfshópur er skila myndi mögulegum sviðsmyndum um uppbyggingu á svæðinu. Segja má að mikill hvalreki hafi rekið á fjörur starfshópsins í vinnuferlinu þegar samningar náðust á milli Akraneskaupstaðar og N1 um framtíðarlóð undir starfsemi fyrirtækisins. Um leið losnuðu lóðir fyrirtækisins við Dalbraut og Þjóðbraut. Starfshópurinn hafði því í raun úr mun stærra svæði að spila en í upphafi starfs síns. Skyndilega skapaðist rými til þess að hýsa ýmsa tengda starfsemi Fjöliðjunnar eins og dósamóttöku og Búkollu nytjamarkaðs. 

Þegar starfshópurinn skilaði sviðsmyndum sínum á dögunum urðu það okkur Sjálfstæðisfólki talsverð vonbrigði hversu lítt hópurinn virðist hafa farið yfir þessar breyttu forsendur á svæðinu. Ef það hefur ekki verið hlutverk þessa starfshóps þá klárlega verkefni kjörinna fulltrúa. Helsta tillaga hópsins var sú að rústir fyrra húss yrðu endurbyggðar og við það skeytt nýbyggingu samkvæmt teikningu frá árinu 2007 og að opnað yrði á þann möguleika að flytja starfsemi Búkollu í hjólbarðaverkstæðið við Dalbraut. 

Hugmyndir starfshópsins voru lagðar fyrir nýskipað notendaráð um málefni fatlaðra á Akranesi sem hefur það hlutverk að vera bæjarstjórn til ráðgjafar í málum sem þessum. Notendaráðið var einróma í þeirri umsögn sinni að mæla eindregið með því að starfshópurinn skoðaði betur þau tækifæri sem fólgin væru í breytingum á byggingarreit Fjöliðjunnar og sameina þá starfsemi sem áður er nefnd í nýju húsnæði fjöliðjunnar.

Það kom okkur því satt best að segja verulega á óvart að  fulltrúar Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum í bæjarráði skyldu þrátt fyrir þessa skoðun notendaráðs ekki vera tilbúnir til þess að vinna málið betur. Lögðu bæjarfulltrúarnir til að brunarústirnar yrðu endurbyggðar og við þær skeytt húsi samkvæmt 14 ára gömlum teikningum. Rök bæjarfulltrúa Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum eru helst þau að aðstaða Fjöliðjunnar í dag sé óviðunandi og því skuli velja þá tillögu sem skemmstan tíma taki að vinna úr. 

Við viljum rífa hið brunna hús  sem er barn síns tíma og uppræta þannig mygluvandamál sem dæmin sanna að örðugt er að losna við.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ósammála þessari skammsýni bæjarfulltrúa meirihlutans líkt og bókað var í bæjarráði. Við viljum rífa hið brunna hús  sem er barn síns tíma og uppræta þannig mygluvandamál sem dæmin sanna að örðugt er að losna við. Við óttumst að með þessum fyrirhugaða bútasaumi sé meirihlutinn að kasta krónunni fyrir aurinn þegar upp verður staðið. 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja horfa til framtíðar. Það felur í sér að hanna og byggja nýja Fjöliðju í húsnæði sem mætir öllum nútímakröfum sem gerðar eru til starfseminnar, mætir þörfum starfsmanna og væntingum skjólstæðinga nú og til lengri framtíðar. Þar má hvorki ímyndaður þröngur tímarammi né skammtímahugsun fá að ráða för. Tækifærið er til staðar. Vilji er allt sem þarf. Hann verður bæjarstjórn að hafa. 

Rakel Óskarsdóttir
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir
Einar Brandsson
Ólafur Adolfsson

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum 2018.