Umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 voru afhentar nýverið en slíkar viðurkenningar eru árlegur viðburður. Þetta kemur fram á vef Akraneskaupstaðar.
Hjónin Maria Antonia de Da Rodrigues og Jón Elías Jónsson fengu viðurkenningu fyrir einbýlishúsalóð sína við Vesturgötu140. Falin perla á Skaganum segir m.a. í umsögn um lóðina sem fékk fjölda tilnefninga.
„Það var eitt tré í garðinum þegar við Maria keyptum þetta hús fyrir 13 árum. Maria á heiðurinn og er hugmyndasmiðurinn á bak við flest sem við framkvæmum. Ég hef aðeins fengið grænari fingur eftir að við fórum að rækta garðinn okkar hér á Akranesi. Maria er fædd í Portúgal og hún ólst upp í fjölbýli í Lissabon. Hún hafði samt sem áður alltaf áhuga á garðrækt og hún er alveg á heimavelli hérna á Akranesi,“ segir Jón Elías Jónsson við Skagafréttir.
Hjónin Maria Antonia de Da Rodrigues og Jón Elías Jónsson fengu viðurkenningu fyrir einbýlishúsalóð sína við Vesturgötu140. Falin perla á Skaganum segir m.a. í umsögn um lóðina sem fékk fjölda tilnefninga.
Í einni þeirra segir m.a. „mikil natni hefur verið lögð við smáatriði og fjölmargar tegundir blóma og annars gróðurs er þarna að finna. Fallegur garðskáli, brýr, skreytingar og fjölbreytt flóra sem eigendur hafa komið sér upp smátt og smátt undanfarin ár. Falin perla á Skaganum.“
Jón Elías segir að það hafi verið tilviljun að þau hjónin hafi skotið rótum á Akranesi á sínum tíma. Þau höfðu engin tengsl við Akranes áður en þau fluttu fyrir 20 árum
„Maria og ég fluttum frá Danmörku árið 2000 og það var tilviljun að við enduðum á Akranesi. Það var ekkert húsnæði að fá í Reykjavík þar sem ég var að starfa. Í gegnum fjölskyldutengsl þá benti Sveinn Kristinsson mér á að það væri hægt að fá húsnæði hér á Akranesi. Hingað fluttum við árið 2000 og höfum við ekki séð eftir því.“
„Það hefur gengið vel að rækta garðinn. Það er ágætt skjól hér á Vesturgötunni og við höfum prófað að rækta allskonar plöntur og jurtir. Vínberjaplanta lifði af fimm ár hér í garðinum en lét síðan undan íslenska vetrinum, við erum líka með allskonar rósir og skrautjurtir sem hafa dafnað vel hjá okkur.“
„Garðurinn er ekki áberandi frá götunni en á undanförnum misserum hafa margir komið að skoða garðinn. Fólk bankar bara hjá okkur og spyr hvort það megi skoða garðinn. Það er ekkert mál og kannski verður meira um slíkar heimsóknir á næsta ári,“ segir Jón Elías.
Dómnefndina skipuðu þau Helena Guttormsdóttir lektor LbhÍ, Sindri Birgisson umhverfisstjóri og Ása Katrín Bjarnadóttir Bs. í landslagsarkitektúr LbhÍ. Nefndin fór í vettvangsferðir í júlí og tók út tilnefningar. Þau unnu m.a. með fagurfræði, fjölbreytileika og samtal við almenningsrými. Markmiðið var að vekja í víðum skilningi athygli á atriðum sem skipta uppbyggingu og framtíð bæjarins máli.