Knattspyrnufélagið Kári á Akranesi er í þjálfaraleit.
Gunnar Einarsson, sem stýrði liðinu á síðustu leiktíð, samdi í dag við Víking úr Ólafsvík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Víkingi Ólafsvík.
Gunnar tekur við þjálfarastarfinu í Ólafsvík af Skagamanninum þaulreynda Guðjóni Þórðarsyni.
Guðjón tók við Ólafsvíkingum um miðjan júlí á þessu ári og endaði Víkingur Ólafsvík í níunda sæti Lengjudeildarinnar.
Gunnar hefur fagnað Íslandsmeistaratitlinum fjórum sinnum sem leikaður KR og Vals. Hann á einnig tvo bikarmeistaratitla sem leikmaður. Gunnar lék með yngri landsliðum Íslands og á að baki einn A-landsleik.
Gunnar hóf þjálfaraferilinn sem aðstoðarmaður Skagamannsins Sigursteins Gíslasonar hjá Leikni í Reykjavík. Gunnar hefur á undanförnum árum þjálfað hjá Val. Hann er rekstrarstjóri íþróttafélagsins Mjölnis í Öskjuhlíð.