Barnsæskan á að vera ævintýri

Barnið, umhverfi þess og réttur til að vera barn

Ingunn Ríkharðsdóttir, skólastjóri í Garðaseli skrifar

Þegar barn fæðist hafa miklar væntingar um framtíð þess byggst upp. Hamingja, tækifæri og velferð hlýtur að vera hverju foreldri efst í huga og með hvaða hætti þeir geti mætt þessum lykilþáttum í lífi barns þeirra. Sumir geta það og gera mjög vel en aðrir lenda í erfiðleikum með þessa grunnþætti í lífi barna. Barnsæskan á að vera ævintýri sem öll börn eiga að fá að upplifa og taka þátt í – það er leiðarljós sem við, sem störfum og vinnum með börnum, höfum ætíð í huga. Því skiptir miklu máli að öll börn eigi kost á að sækja leikskóla, fái nám og upplifun við hæfi og taki þátt í leik og starfi með jafnöldrum. Þannig jöfnum við uppeldisaðstæður barna.

Fagna ber nýju frumvarpi félags- og barnamálaráðherra sem ber heitið Breytingar í þágu barna. Frumvarpið byggir á snemmtækri íhlutun fyrir börn í vanda, tryggan aðgang að þjónustu og stuðningi við þau og fjölskyldur þeirra og þjónustukerfin vinni saman á skilvirkan hátt til að mæta þörfum barna fljótt og vel. Ábyrgð og hlutverk hinna fullorðnu í lífi barna eru mikil og ef þeir, af einhverjum ástæðum, geta ekki uppfyllt það hlutverk sitt, þarf að grípa inn í aðstæður með viðeigandi hætti. Þannig höldum við utan um hvert barn og réttindi þess til að vera barn á eigin forsendum.

Heilsuleikskólinn Garðasel og heilsueflandi leikskóli

Frá árinu 2004 hefur Garðasel tilheyrt samfélagi heilsuleikskóla sem starfa eftir Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur. Hún brann fyrir því að lýðheilsuþættir eins og hreyfing, næring og vellíðan væru áhersluþættir í skólastarfi, löngu áður en þessi þættir urðu grunnþættir í aðalnámskrá skólastiganna þriggja, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Árið 2016 gerðist Garðasel hluti af samfélagi Heilsueflandi leikskóla hjá Landlæknisembættinu.

Áhersla heilsuleikskólanna byggir á markvissri hreyfingu og jákvæðri upplifun barna í gegnum hreyfinguna  og holla næringu. Í Garðaseli er lögð áhersla á fjölbreytta hreyfingu úti og inni. Markvissar hreyfistundir eru einu sinni í viku og þar er unnið með aldurtengd viðmið Heilsubókar barnsins m.a.  jafnvægi, hopp / stökk, samhæfingu og úthald og að hvert barn fái tækifæri og áskoranir til að reyna sig og efla færni sína. Þá eru Íþróttadagar  og sundkennsla í júní hluti af viðfangsefnum og oft nýtur skólinn aðstoðar frá íþróttafélögum á Akranesi í framkvæmd þeirra.

Útivist  er einu sinni til tvisvar á dag og þar fá börnin útrás og tækifæri til að hreyfa sig og nýta leikgleði sína í fjölbreyttum aðstæðum, innan skólalóðar sem utan. Börnin fara í lengri og styttri gönguferðir og læra þannig á nærumhverfi sitt. Í þeim ferðum gefast tækifæri til að reyna jafnvægið, hoppa, klifra, efla hugrekki og úthald en um leið varúð og skynsemi – börn geta nefnilega meira en við höldum. Leyfum þeim að nota hugmyndaflug sitt og frumkvæði.

Útinám er mikilvægur þáttur í skólastarfinu í Garðaseli og þar eru skógræktin og Langisandur mikilvægir hluti námsumhverfis og eru þessar náttúruperlur bara rétt handan við hornið. Börnin fá að kanna og upplifa, skoða og rannsaka, prófa, læra á umhverfi sitt og að ganga um náttúruna af virðingu. Sannreynt er að nám í náttúrunni, þar sem rými og frelsi ríkir og áskoranir eru fjölmargar, þá eflist félagsfærni og jákvæð sjálfsmynd þeirra og vináttuböndin styrkjast.

Matseðill Garðasels byggir á næringarviðmiðum Heilsustefnunnar og Næringarstefnu, en áhersla er lögð á fjölbreyttan og hollan heimilismat, grænmeti og ávexti og að holl fita sé notuð við matargerð og með mat. Sykur og salt eru í lágmarki í matargerð. Það sem er börnum hollt og nauðsynlegt er ekki endilega það sem fullorðnir velja sér í næringu en börn á leikskólaaldri eru á uppvaxtartímabili og þurfa á uppbyggjandi næringarefnum að halda.

Vellíðan og vinátta barna

Félagsleg tengsl barna skipta gríðarlega miklu máli og því fjölbreyttari og dýpri sem þessi tengsl barna eru því betra. Fyrstu tengslin eru við foreldra og nærfjölskyldu og þegar barnið kemur í leikskólanna stækkar félagslegt umhverfi þess verulega. Inn í líf þeirra koma önnur börn og fullorðnir og þau þurfa að læra að deila athygli með öðrum og taka tillit til annarra.

Í Garðaseli er unnið með Uppeldi til ábyrgðar og Vináttuverkefni Barnaheilla. Þessar tvær nálganir eru ólíkar en meginmarkmið þeirra er það sama – að efla vellíðan og  félagsfærni barna og mæta ólíkum þörfum þeirra.

Uppeldi til ábyrgðar gengur út frá ólíkum þörfum barna og fullorðinna. Einstaklingar, börn og fullorðnir, eru ólíkir og sama nálgun mun ekki henta öllum. Í barnahópnum eru leiðtogar sem vilja fá að ráða meiru en aðrir og taka oft af skarið, börn sem þurfa mikla umhyggju og nánd, börn sem þurfa frelsi og fá að prófa hugmyndir sínar en öll þurfa þau öryggi – að eiga heimili og það öryggi sem það skapar. Þessi hugmyndafræði segir okkur að við þurfum ólíkar nálganir í samskiptum en grunnreglur gilda þó ávallt, því þarfir eins geta ekki gengið yfir þarfir og rétt annarra. 

Vináttuverkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti og er unnið með námsefnið á öllum deildum í Garðaseli. Myndaspjöld með fjölbreyttum aðstæðum sem börn eiga auðvelt með að máta sig inn í, sögur og söngvar – námsefni sem höfðar vel til barna og veitir raunveruleg tækifæri til að hafa áhrif á þroska þeirra og samskiptafærni. 

Verkefnið á að efla jákvæðan skólabrag, sem kemur í veg fyrir eineltismál. Lögð er áhersla á  að börn læri að bera virðingu hvert fyrir öðru og sýna samkennd og umburðarlyndi. Hvernig er góður félagi og hvers virði er að eiga vini ? Hvernig leysum við ágreiningsmál og höldum áfram að leika og vera vinir ? Þessi snemmtæka vinna með samskipti hefur það markmið að börn læri góð samskipti og læri líka að segja frá í einlægni og í trausti þess að hinir fullorðni aðstoði þau. Því trausti má ekki bregðast.

Verkefnið leggur líka mikla áherslu á hlutverk hinna fullorðnu í umhverfi barna. Hvernig tökum við á málum sem upp koma, hvernig tölum við í áheyrn barna og hvaða vilja höfum við til að vera hluti af góðum lausnum með velferð barna að leiðarljósi ? Foreldrar barna, sem hafa lent í einelti sem þolendur eða gerendur, þekkja af eigin raun þá erfiðleika sem svona mál færa inn í líf fjölskyldna. Ábyrgðin er mikil og er lykilþáttur í að einelti fái ekki að þrífast.

Þrautseigja og seigla, hrós og mistök

Í dag eru þrautseigja og seigla talin grunngildi þess sem þarf að efla hjá börnum þannig að þau taki þá færni með sér inn í framtíðina og lífið. Ekkert barn kemst hjá því að upplifa reiði, mótlæti eða leiða. Nám þeirra felst í því að læra að takast á við neikvæðar tilfinningar á eigin forsendum og fá leiðsögn, ekki að foreldrar eða hinir fullorðnu leysi málin fyrir þau eða uppfylli það sem þau vilja fá. Þannig eflum við þrautseigju og seiglu.

Allir þekkja þá góðu tilfinningu sem verðugt hrós veitir og það skiptir máli að hrósa fyrir réttu hlutina. Oflof og orðið „ snillingur „ eru mikið notuð í dag. Beinum hrósi að viðleitni barna í stað niðurstöðu, hrósum þeim fyrir að reyna frekar en árangurinn sjálfan. Hrósum jafnvel fyrir mistök, því þau sýna að barnið hefur haft kjark til að takast á við áskorun án fullvissu um útkomuna. Þannig eflum við hugsunarhátt sem er eflandi og gott veganesti fyrir börn út í lífið. 

Ingunn Ríkharðsdóttir, skólastjóri í Garðaseli.