Þorrablót Skagamanna hefur frá árinu 2011 verið fastur hluti af tilveru Akurnesinga nær og fjær. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna Covid-19 hafa margir velt því fyrir sér hvort Þorrablótið fari fram – og ef svo er þá hvar, hvenær og hvernig? Árgangur 1979 er með verkefnið í sínum höndum og þar á bæ er lausnamiðuð verkáætlun í gangi.
Árgangur 1979 fékk það krefjandi verkefni eftir Þorrablótið 2020 að taka við keflinu af árgangi 1971. Sá kraftmikli árgangur hélt utan um alla þræði blótsins í tíu skipti eftir að hafa sett verkefnið í gang á sínum tíma.
Árgangur 1979 skipuleggur því Þorrablót Skagamanna 2021.
Margir hafa velt því fyrir sér hvort Þorrablótið fari fram og þá hvernig ef af því verður. Skagafréttir fóru á stúfana og eftir nokkur símtöl eru fyrstu fregnir úr skipulagsnefnd Þorrablóts Skagamanna 2021 ánægjulegar og lofa góðu þrátt fyrir ýmsar takmarkanir á samkomuhaldi vegna Covid-19.
Árgangur 1979 hefur nú þegar lagt fram áætlun sem mun skila þorrablóts stemningu heim í stofu til þorrablótsgesta 2021 laugardaginn 23. janúar 2021.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Skagafréttir hafa er stefnt að því að vera með beina útsendingu eða streymi frá Þorrablóti Skagamanna 2021. Þorrablótsgestir fá upplifunina heim í stofu eða á þeim stað sem þeir kjósa að vera.
Útsendingin yrði líklega frá Báran Brugghús og þar sem að skemmtikraftar og aðrir koma fram í beinni útsendingu. Í þessari útsendingu er stefnt að því að halda til haga þeim hefðum sem hafa einkennt Þorrablót Skagamanna frá árinu 2011. Skemmtiatriði, tónlist, annáll og valið á Skagamanni ársins 2020 verður kynnt – svo eitthvað sé nefnt.
Þorramaturinn verður að sjálfsögðu aðgengilegur í allskonar útgáfum og magni í gegnum „takeaway“ þjónustu sem á eftir að útfæra og kynna betur. Einnig á eftir að finna út úr því hvernig miðasala fer fram en nánari fréttir berast af því þegar nær dregur.