Aðalfundur Golfklúbbsins Leynis á Akranesi fór fram fimmtudaginn 3. desember s.l. Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundarbúnað og var þetta í fyrsta sinn sem aðalfundur GL fer fram með slíkum hætti.
Starfsárið 2020 var það 55 í röðinni hjá Golfklúbbnum Leyni sem var stofnaður árið 1965.
Nýtt met var sett í aðsókn en alls voru 26.852 hringir leiknir á Garðavelli en til samanburðar voru leiknir 21.720 hringir árið 2019.
Félagsmenn úr Leyni voru með 62% af skráðum hringjum eða 16.600 hringi alls. Sá sem lék flesta hringi á árinu 2020 var Jón Alfreðsson en hann var með 127 hringi skráða.
Umtalsverð fjölgun félagsmanna var á árinu 2020. Alls voru 623 félagar skráðir í klúbbinn og fjölgaði þeim um 123. Konum fer fjölgandi og er hlutafall kvenna nú 35% en árið 2019 var hlutfall kvenna 23% af öllum félagsmönnum. Fram kom í ræðu formanns Leynis, Odds Péturs Ottesen, að helsti vaxtarsproti í fjölgun kvenna sé helsti vaxtarsproti klúbbsins. Markmið klúbbsins sé að ná 750 félagsmönnum sem myndi gjörbreyta rekstrarforsendum klúbbsins. Einnig varð nokkur fjölgun meðlima í fjaraðild frá nærliggjandi sveitarfélögum.
Þáttaka í mótum hefur aldrei verið betri en á árinu 2020, bæði í opnum mótum sem og innanfélagsmótum.
Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Leynis, sagði í samantekt sinni að rekstrarárið hefði gengið vel en Rakel er á sínu fyrsta ári sem framkvæmdastjóri klúbbsins.
Rekstrartekjur klúbbsins námu rétt tæplega 128 milljónum kr. og hækkuðu um tæpar 24 m.kr. á milli ára eða um 23%.
Fjölgun félagsmanna, auknar vallartekjur og rekstrarstyrkir vega þar þungt. Félagsgjöld hækkuðu frá tæpum 29 m.kr. á árinu 2019 í tæpar 36 á árinu 2020. Húsaleigutekjur af Frístundamiðstöðinni Garðavöllum voru langt undir áætlun ársins 2020 og á það sér eðlilega skýringu á tímum Covid-19 með öllum þeim takmörkunum sem því fylgir.
Vallartekjur jukust um rúm 41% á milli ára og fóru úr rúmum 16 milljónum í rúmar 23 m.kr.
Rekstrarafkoma klúbbsins var jákvæð um 23 m.kr. fyrir fjármagnsliði og afskriftir og má því
segja að stað klúbbsins sé góð eftir rekstrarárið 2020.
Ýmsar viðurkenningar voru veittar á aðalfundinum.
Jón Ármann Einarsson fékk Guðmundar og Óðinsbikarinn sem gefin var af Helga Daníelssyni árið 1990. Bikarinn fékk Jón Ármann fyrir öfluga aðkomu hans í ýmsum verkefnum á golfvellinum sem hann hefur unnið í sjálfboðavinnu.
Tristan Freyr Traustason fékk háttvísisverðlaun GSÍ sem er bikar sem veittur er ár hvert þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem GL vill sjá í afreksefnaunglingum sínum.
Nánari upplýsingar í árskýrslu Leynis sem er hér eða smelltu á myndina til að opna.