Nýjar reglur um sóttvarnir taka gildi fimmtudaginn 10. desember. Á meðal þess sem er í reglugerðinni er að sundlaugar landsins verða opnaðar aftur – með takmörkunum þó. Á Akranesi verður einhver bið á því að bæjarbúar geti farið í sund.
Sundlaugin á Jaðarsbökkum verður lokuð fram á mánudag vegna framkvæmda á búningsklefum sundlaugar.
Hefðbundin opnunartími verður frá og með mánudeginum 14. desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gefur reglugerð út með nýjum reglum. Hún verður í gildi til 12. janúar.
Helstu atriðin í nýrri reglugerð um sóttvarnir
- Áfram mega aðeins 10 manns koma saman.
- Tveggja metra regla er áfram í gildi.
- Börn sem fædd eru árið 2005 eða síðar þurfa ekki að vera með grímu. Tveggja metra regla og 10 manna hámarksfjöldi eiga ekki við um þau.
- Nú mega vera 5 manneskjur á hverjum 10 fermetrum í öllum búðum. Aldrei mega þó vera fleiri en 100 viðskiptavinir inni í sömu búðinni í einu.
- Veitingastaðir mega taka við 15 viðskiptavinum í hverju rými í einu. Þeir mega vera opnir til klukkan 22. Eftir klukkan 21 mega ekki koma nýir viðskiptavinir inn á veitingastaði.
- Sundstaðir mega opna aftur. Þar má vera helmingur af þeim fjölda sem venjulega er leyfilegur.
- Íþróttaæfingar fyrir fólk sem er fætt árið 2004 og fyrr eru leyfðar í efstu deild í íþróttum innan Íþróttasambands Íslands. Afreksfólk má æfa íþróttina sína. Æfingar í bardaga-íþróttum þar sem fólk verður að snertast eru ekki leyfðar.
- Allir mega stunda skipulagðar æfingar utandyra ef fólk snertist ekki.
- Nú mega allt að 30 manns æfa og sýna á sviði. Allt að 50 gestir mega sækja sýningar. Þeir eru skyldugir til að vera með grímu. Halda má sýningar fyrir allt að 100 börn í einu ef þau eru fædd árið 2005 eða síðar. Hlé og áfengissala eru ekki leyfð. Sæti eiga að vera númeruð og skráð á nafn.
- Nú mega aftur vera 50 manns í jarðarförum.
Breytingar á skólastarfi
Reglum um skólastarf er breytt í nýju reglugerðinni. Um áramótin verður reglum um skólastarf breytt meira. Það verður kynnt síðar. Helstu breytingarnar núna eru þessar:
- Ekki eru lengur reglur um hvað mörg börn mega vera í sama rými í leikskólum. Barnahópar mega nú fara á milli deilda eða jafnvel leikskóla. Það kemur sér vel þegar skólastarfi er hagrætt í jólafríinu.
- Nemendur í 8. til 10. bekk í grunnskóla þurfa nú ekki að vera með grímu í skólanum og tveggja metra reglan gildir ekki um þau.
- Framhaldsskólar og háskólar mega hafa opið lestrarrými fyrir allt að 30 manns í einu.