Skagakonan Bára fékk þjálfarastöðu hjá þekktu sænsku félagi

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, knattspyrnuþjálfari frá Akranesi, hefur í nógu að snúast þessa dagana. Bára Kristbjörg greindi frá því í gær að hún væri á leiðinni til Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún mun þjálfa U-17 og U-19 ára lið félagsins.

Bára Kristbjörg er fædd á Akranesi árið 1989. Hún lék með ÍA, Val og ÍBV á sínum tíma. Og hún á leiki að baki með yngri landsliðum Íslands.

Bára Kristbjörg hefur starfað fyrir KSÍ á undanförum misserum sem þjálfari. Hún var aðstoðarþjálfari hjá kvennaliði FH í efstu deild og s.l. sumar var hún ein af sérfræðingunum á Stöð 2 sport í umfjöllun um PepsiMax deildina í knattspyrnu.

Sænska liðið er með marga Íslendinga í sínum röðum en Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari aðalliðsins og Björn Sigurbjörnsson er aðstoðarþjálfari liðsins. Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir eru leikmenn aðalliðsins.

Bára réði sig nýverið sem þjálfara Augnabliks frá Kópavogi sem leikur í næst efstu deild Íslandsmótsins líkt og kvennalið ÍA.

„Ég vil bara koma á framfæri miklu þakklæti til stjórnar Breiðabliks/Augnabliks og hvernig þau tóku í það þegar mér var boðin þjálfarastaða erlendis,“ segir Bára við Fótbolta.net.

Foreldrar Báru eru þau Brynja Kristbjörg Jósefsdóttir og Rúnar Þór Óskarsson.