Velgengni enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur er í hæstu hæðum um þessar mundir en ansi langt er síðan liðið hefur trónað á toppnum í ensku knattspyrnunni eins og raunin hefur verið undanfarið.
Vegna þessa hafa stuðningsmenn félagsins sprottið fram á ýmsum vettvangi enda oftar en ekki þurft að láta lítið fyrir sér fara á undanförnum árum.
Pétur og Gísli með kökuna glæsilegu – kakan er í miðjunni – Pétur er til vinstri og Gísli er til hægri. Aðsend mynd.
Eftir glæstan sigur liðsins á erkifjendunum í Arsenal um síðustu helgi, var stofnaður sérstakur aðdáendaklúbbur liðsins hér á landi sem ber hinn merka titil Tottenham-klúbbur Kjósa- og Borgarfjarðarsýslna hinna fornu.
Klúbburinn hefur stofnað hóp á facebook sem lokaður hópur fyrir eðalborna Spurs-aðdáendur með tengingar á Akranes, Borgarnes, Borgarfjörð og Mosfellsbæ – semsagt Kjósa- og Borgarfjarðarsýslur hinar fornu. Þar sameinast félagar í umræðum og vangaveltum um þetta stórfenglega knattspyrnulið – og fagna litlum sem stórum sigrum.
Af sóttvarnarástæðum mættu aðeins tveir á stofnfundinn en það voru þeir Gísli Einarsson fulltrúi Borgfirðinga og Borgnesinga og Pétur Magnússon fulltrúi Skagamanna og Mosfellinga.
Við það tækifæri gæddu þeir félagar sér á þessari dýrindisköku sem sérbökuð var fyrir stofnfundinn. Þrátt fyrir fámenni á stofnfundinum eiga þeir félagar von um að fjöldi meðlima í klúbbnum nái miklum fjölda strax næstu vikur enda margir vaskir sveinar og glæstar meyjar á upptökusvæði klúbbsins sem tilheyra hinum rómaða hópi Tottenham aðdáenda.
Tottenham-aðdáendur á umræddum svæðum eru hvattir til að melda sig inn í hópinn og taka þátt.