Sara Björk og Gylfi Þór knattspyrnufólk ársins 2020 – Ísak Bergmann þriðji á lista

Sara Björk Gunnarsdóttir og Gylfi Þór Sigurðsson eru knattspyrnufólk ársins 2020 í kjöri sem leikmannaval KSÍ stendur að. Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson er í þriðja sæti á lista hjá körlum í þessu kjöri.

Þetta er í 17. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ. Að kjörinu standa fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.

Nánar á vef KSÍ:

Þetta er í sjötta sinn í röð sem Sara Björk er knattspyrnukona ársins og í sjöunda sinn alls. Hún leikur með Evrópumeistaraliði Lyon í Frakklandi. Sveindís Jane Jónsdóttir, úr Keflavík, varð önnur í kjörinu og Glódís Perla Viggósdóttir leikmaður Rosengard varð þriðja.

Þetta er í níunda sinn sem Gylfi Þór fær þessa viðurkenningu – en hann leikur með enska úrvalsdeildarliðinu Everton. Guðlaugur Victor Pálsson leikmaður Darmstad varð annar í kjörinu og Ísak Bergmann Jóhannesson leikmaður Norrköping í Svíþjóð varð þriðji.

Í kynningu á leikmönnum á vef KSÍ er eftirfarandi texti ritaður um Ísak Bergmann.

Ísak Bergmann Jóhannesson hefur átt frábært tímabili í sænsku úrvalsdeildinni með IFK Norrköping. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í liði sínu sem endaði tímabilið í sjötta sæti. Ísak Bergmann lék 28 leiki í deildinni, skoraði í þeim þrjú mörk og gaf 10 stoðsendingar. Hann var lykilmaður í liði U21 karla sem tryggði sér sæti á EM 2021, en það er í annað sinn sem U21 karla kemst í lokakeppni stórmóts. Ísak lék svo sinn fyrsta A landsleik þegar hann kom inn á gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA.