„Fjölmargar fjölskyldur hafa lagt leið sína í skógræktina og notið þess að búa til eigin útgáfu af jólaævintýri frá því að Jólagleðin í Garðalundi hófst í byrjun desember,“ segja skipuleggjendur ævintýrisins.
Að þessu sinni var ekki hægt að bjóða upp á fjölmenna samverustund þegar kveikt var á Ljósunum hans Gutta og því er jólagleðin með öðru sniði en undanfarin ár.
Það var töluverð áskorun fyrir þær Söru Hjördísi, Hlédísi og Margréti að hugsa allt upp á nýtt en jafnframt virkilega ánægjulegt að það skyldi takast að laga jólagleðina að þeim samkomutakmörkunum sem í gildi eru.
Ljósin voru sett upp í byrjun desember og einnig ýmsir viðkomustaðir s.s. heimili jólakattarins og potturinn hennar Grýlu.
Á hverjum stað er að finna skilti með upplýsingum og QR-kóðum sem hafa að geyma sögur, kvæði og tónlist og nú er það í höndum hverrar fjölskyldu að nýta það sem hentar í eigin jólaævintýri.
Ef fólk vill undirbúa sig, nú eða heyra aftur sögurnar og kvæðin er hægt að skoða vefsíðuna jolagledi.is.
Garðalundur er dásamlegur staður og það er gaman að geta klætt hann í ævintýralegan jólabúning.
Þær stöllur mæla með því að fjölskyldujólakúlur taki með sér nesti og gefi sér tíma til að upplifa og gleðjast saman. Þau sem stærri eru geta aðstoðað þau sem minni eru með því að lesa á spjöldin og skanna QR-kóðana og þau minni geta svo án efa miðlað af sínum fróðleik um jólasveinana, Grýlu og Leppalúða.
Þetta er gleðileg fjölskylduafþreying á skrítnum tímum og þó svo að ævintýrið sé fyrst og fremst ætlað þeim sem vita að jólasveinarnir eru til geta allir átt ánægjulega stund í Garðalundi; ömmur, afar, pabbar, mömmur, frænkur og frændur, stórir og smáir. Það eru allir velkomnir í Garðalund,“ segja þær Sara Hjördís, Hlédís og Margrét.