„Ég varð himinlifandi þegar mér var tilkynnt að ég hefði hlotið styrkinn“

Thelma Sjöfn Hannesdóttir, rafvirki og þriggja barna móðir frá Akranesi, fékk góðar fréttir á dögunum. Thelma missti vinnuna í apríl á þessu ári en hún fékk nýverið námsstyrk til þess að stunda nám í kerfisstjórnun. Styrkurinn er hluti af átaki sem Íslandsbanki, Advania, NTV og Prómennt standa að. Frá þessu er greint á vef Advania.

Thelma var valin úr fjölmennum hópi umsækjenda til að hljóta styrk til náms í kerfisstjórnun.

Thelma missti vinnuna í apríl og var einmitt að leita leiða til að afla sér nýrrar þekkingar og atvinnumöguleika.

Námsstyrkurinn sem Thelma hlýtur er liður í átaki sem Íslandsbanki, Advania, NTV og Prómennt og er ætlað að auka hlut kvenna í kerfisstjórnun. Kerfisstjórar eru mjög eftirsóttir á vinnumarkaði en afar fáar konur útskrifast úr náminu.

Thelma hlýtur styrk fyrir skólagjöldum til að stunda árs langt nám í kerfisstjórnun við NTV. Að auki býðst henni starfsnám hjá Advania og Íslandsbanka.

„Ég var meðal 42 starfsmanna sem misstu vinnuna á mínum vinnustað í apríl. Síðan hef ég verið atvinnulaus og það hefur verið svolítið niðurdrepandi að sækja um vinnur og upplifa endurteknar hafnanir. Vegna ástandsins í atvinnulífinu fannst mér rökrétt að nýta tímann til náms og afla mér frekari þekkingar. Ég sá fyrir mér að hefja nám í forritun.“

Thelma rak svo augun í auglýsingu frá Íslandsbanka og Advania um námsstyrk fyrir konur í kerfisstjórnun.

„Ég vissi ekkert um kerfisstjórnun en googlaði það bara og sótti um strax. Ég hélt nefninlega að maður þyrfti að vera forritari eða tæknifræðingur til að sinna svona störfum. Þegar ég las lýsinguna á náminu og starfi kerfisstjóra, fannst mér það höfða sterkt til mín. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tölvum og fannst þetta hljóma mjög spennandi.“

Hún útskrifaðist sem rafvirki árið 2015 og hefur unnið við það síðan. Að auki tók hún eitt ár í rafeindavirkjun og bindur vonir við um að sá bakgrunnur nýtist á nýrri vegferð.

„Ég hef alltaf haft unun af því að vinna með höndunum. Ég er mjög verklagin svo smíði, saumaskapur og svoleiðis á mjög vel við mig. Ég er nokkuð viss um að starf kerfisstjóra ætti vel við mig líka.“

Hvaða væntingar hefur þú til námsins?

„Ég er aðallega spennt fyrir því að læra eitthvað nýtt. Ég varð himinlifandi þegar mér var tilkynnt að ég hefði hlotið styrkinn. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig því námið kostar sitt. Ég vona auðvitað að námið leiði mig eitthvað áfram og ég geti unnið við kerfisstjórn á endanum.“