„Það er dýrmætt að vera minntur á mikilvægi samverunnar og að njóta hennar“

Ella María Gunnarsdóttir
Forstöðumaður menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað skrifar:

Nú í ár hefur verið mikið rætt um samveru og þá kannski helst með þeim formerkjum að ákveðnar hömlur gildi um samveruna. Við höfum ítrekað verið hvött til að takmarka samveru okkar við fáa, dvelja sem mest heima við og ferðast innanhúss sem allir kannast eflaust við.

Þessi fyrirmæli fara eflaust misjafnlega í okkur mannfólkið og hafa talsverð áhrif á okkar líf og störf. Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hefur þetta alls ekki verið svo slæmt. Ég hef átt mjög góðar og nærandi stundir með því fólki sem er „í kúlunni minni“ og verið meðvitaðri um hversu mikil ánægja fylgir því að eiga góða stund með mínum nánustu. Við höfum ekki verið með mikið tilstand varðandi samverustundirnar, við höfum tekið í spil, farið í göngutúra, golf, frisbígolf, bakað (reyndar allt of mikið), farið í bíltúra, spjallað og annað þar frameftir götunum. Gönguferðum með vinkonunum hefur líka farið fjölgandi og verður vonandi framhald á. Þetta þarf nefnilega ekki að vera svo flókið. 

Ég hef átt mjög góðar og nærandi stundir með því fólki sem er „í kúlunni minni“ og verið meðvitaðri um hversu mikil ánægja fylgir því að eiga góða stund með mínum nánustu.

En samvera er ekki einungis nærandi fyrir sálina heldur getur hún verið lífsnauðsynleg. Í gamla daga naut heimilisfólk samveru í baðstofunni. Það var ekki einungis gert til að deila sögum hvert með öðru og eiga saman góðar stundir heldur var það lífsnauðsynlegt fyrir heimilisfólk til að halda á sér hlýju þegar kalt var í veðri. Oft á tíðum var auk þess lítill sem enginn samgangur á milli bæja vegna fjarlægða eða aðstæðna og fólk því ósjálfrátt í einskonar „kúlu“.

Þegar aðstæður leyfa vona ég að fjölskyldur og aðrir hópar komi í heimsókn á byggðasafnið okkar í Görðum þar sem glæný sýning er sérstaklega hugsuð fyrir samverustundir.

Þegar aðstæður leyfa vona ég að fjölskyldur og aðrir hópar komi í heimsókn á byggðasafnið okkar í Görðum þar sem glæný sýning er sérstaklega hugsuð fyrir samverustundir. Í hljóðleiðsögn um sýninguna er búnaður þar sem fólk hlustar aðeins með öðru eyranu til þess að passa að hver og einn hverfi ekki í eigin hugarheim heldur geti notið heimsóknarinnar með sínu fólki. Með því móti gefst fólki kostur á að ræða saman um það sem fyrir augu ber og deila upplifun sinni hvert með öðru. Fyrir þá sem ekki vita þá er jafnframt hægt að eiga skemmtilega samverustund á útisvæði safnsins en þar er snjallsímaratleikur opinn allan sólarhringinn, allt árið um kring. Sá ratleikur er aðgengilegur í smáforritinu TurfHunt.

Ég er t.d. svo heppin að eiga vinkonur sem eru lausnarmiðaðar og við höfum getað sinnt okkar vinskap með öðrum hætti en við erum vanar.

Á okkar tímum gefst okkur mun meira tækifæri til samverustunda en áður var og meira að segja þó við getum ekki verið á sama stað þá getum við samt sem áður notið þess að eiga stundir saman með tilstuðlan tækninnar. Ég er t.d. svo heppin að eiga vinkonur sem eru lausnarmiðaðar og við höfum getað sinnt okkar vinskap með öðrum hætti en við erum vanar. Saumaklúbbar fara fram í fjarfundum á netinu og myndsamtölum hefur fjölgað mikið. Ég hef held ég aldrei staðið sjálfa mig að því að hugsa eins oft hvað mér sé hlýtt í hjartanu og nú í ár. Ég get þó vel viðurkennt að ég hlakka til að fá að njóta samveru án takmarkana þegar þar að kemur.

Ég held því að árið sem nú er senn á enda sé langt því frá alslæmt. Það er dýrmætt að vera minntur á mikilvægi samverunnar og að njóta hennar. Vonandi náum við að halda í þann lærdóm sem árið hefur fært en samt sem áður er vonandi stutt í að við getum hitt vini og vandamenn og átt með þeim dýrmætar samverustundir.

Ella María Gunnarsdóttir
Forstöðumaður menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað