Fjölgun íbúða á Akranesi, efling stafrænnar stjórnsýslu og upplýsingagáttar hjá Akraneskaupstað er rauði þráðurinn í viljayfirlýsingu sem var gefin út rétt fyrir jól. Ríkisstjórn Íslands og tvær stofnanir koma að þessu tilraunaverkefni ásamt Akraneskaupstað.
Viljayfirlýsingin felur í sér sjö mismunandi verkefni sem unnið verður að næstu mánuðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Í frétt RÚV um málið segir að um áttatíu íbúðir verða byggðar fyrir almennan leigumarkað fyrir um þrjá milljarða kr.
Um er að ræða samvinnu í tilraunaverkefni þar sem markmiðið er að;
- Að stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda með því að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp í húsnæðismálum hvað varðar fyrirsjáanlegan skort á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu
- Greina samspil húsnæðiskostnaðar og almenningssamgangna á vaxtarsvæðum
- Efla stafræna stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála í sveitarfélaginu
- Auka skilvirkni í skipulagsmálum.
Verkefnið mun stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við þá húsnæðisþörf sem metin er í húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar. Í áætluninni kemur m.a. fram að töluverð þörf sé fyrir aukið framboð af leiguhúsnæði á Akranesi fyrir mismunandi félagshópa. Á það við um leiguíbúðir á almennum markaði, félagslegt leiguhúsnæði, leiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur undir tekju- og eignarmörkum, fyrir fatlað fólk og aldraða. Þá mun verkefnið verða til þess að varpa frekara ljósi á raunhúsnæðiskostnað þeirra sem búa á vaxtarsvæðum en stunda vinni á höfuðborgarsvæðinu. Með verkefninu verður Akraneskaupstaður einn af brautryðjendum rafrænna húsnæðisáætlana, vinnur með HMS að markvissri notkun rafrænnar stjórnsýslu byggingarmála með Byggingargátt og mun stuðla að bættum upplýsingum um leigumarkaðinn með því að vinna undirbúningsvinnu með HMS að rafrænni skráningu leigusamninga.
Hluti þessa verkefna er liður í aðgerðaráætlun Akraneskaupstaðar vegna Covid-19 sem kynnt var fyrr á árinu og er ætlað að stuðla að tryggingu starfa í byggingariðnaði.
Viljayfirlýsingin felur í sér sjö mismunandi verkefni sem unnið verður að næstu mánuðina.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra fyrir félagsmálaráðuneytið , Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, Soffía Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Leigufélagsins Bríet og Hermann Jónasson forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun undirrituðu viljayfirlýsinguna.