„Ætla að gróðursetja eitt tré fyrir hvern bíl sem ég sé á rúntinum þetta kvöld“

Þetta er bara ein af mörgum undarlegum hugmyndum sem ég og vinur minn hann Patrekur höfum fengið,“ segir Alexander Aron Guðjónsson en hann ætlar að endurvekja „rúntinn“ á Akranesi þann 13. janúar næstkomandi. 

Alexander settir á laggirnar viðburð á Facebook og er óhætt að segja að viðburðurinn hafi vakið mikla athygli og áhuga. Nú þegar hafa rúmlega 600 aðilar sýnt því áhuga á að fara á „rúntinn“ á Skaganum miðvikudaginn 13. janúar kl 20:40 að staðartíma.

Nánar hér:

Alexander Aron var inntur eftir því afhverju það væri áhugavert að endurvekja rúntinn á Skaganum?

„Rúnturinn á Akranesi var mjög umtalaður hér á árum áður. Það var svakaleg „rúntmenning“ hér í bænum. Ef maður kom ekki á réttum tíma á „rúntinn“ þá var varla pláss fyrir bílinn í „röðinni“ og biðröð í öllum bílalúgum og þá sérstaklega á „Shell“.

Ég byrjaði að „rúnta“ með eldri vinum mínum áður en ég fékk bílprófið. Þegar ég fékk sjálfur ökuleyfið tók maður þetta bara alla leið. Við skipulögðum „rúntkvöldin“ og lögðum smá vinnu í að gera þetta skemmtilegt. Í skólanum völdum réttu tónlistina fyrir kvöldið og að sjálfsögðu voru græjurnar alltaf í botni. Síðan var bara grín og glens með vinunum á „rúntinum“ fram á nótt.

Alexander segir að hugmyndin að þessum viðburði hafi vaknað þegar hann fór á „rúntinn“ með vini sínum nýverið.

Ætlar að gróðursetja eitt tré fyrir hvern bíl sem hann sér á rúntinum þetta kvöld

„Þar hittum við vinkonur okkar sem voru líka að „rúnta“. Við fórum að ræða þessa menningu og hvort það væri ekki best að búa til viðburð á fésbókinni. Þetta var bara grín í upphafi en viðtökurnar fóru langt fram úr væntingum og mínum björtustu vonum. Ég er búinn að fá ótal mörg skilaboð frá fólki sem er mjög spennt fyrir þessum viðburði. Fólk er farið að „plana“ kvöldið, hópa sig saman í bíla, og velja réttu tónlistina. Vonandi verður þetta bara til þess að endurvekja aðeins lífið í miðbænum sem var hér áður fyrr,“ segir Alexander og bætir við hann ætli að gróðursetja eitt tré fyrir hvern bíl sem hann sér á rúntinum þetta kvöld.

„Við ætlum bara að gera þetta einu sinni á þessum erfiðu tímum. Umhverfissjónarmiðin eru að sjálfsögðu ekki „rúntmenningunni“ í hag og við vitum alveg af því. Eins og áður segir þá lofa ég að gróðursetja eitt tré fyrir hvern bíl sem ég sé á rúntinum þetta kvöld.“

Alexander Aron segir að hann eigi enn eftir að setja í framkvæmd ýmsar hugmyndir með vinahópi sínum.

„Einn af okkar stærstu draumum er að vera með brekkusöng á Elínarhöfða – það verður kannski næsta verkefnið okkar þegar ástandið lagast í þjóðfélaginu,“ segir Alexander Aron.