Körfuknattleiksfélag Akraness fagnar í dag 35 ára afmæli en félagið var stofnað með formlegum hætti þann 9. janúar árið 1986.
Fram að þeim tíma eða frá árinu 1968 var starfandi körfuboltaráð innan ÍA. Árið 1970 hóf ÍA keppni í körfuknattleik og á félagið því 50 ára keppnisafmæli á þessu ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Körfuknattleiksfélagi Akraness.
ÍA náði að komast í efstu deild í karlaflokki vorið 1993 og lék í efstu deild allt fram fram til tímabilsins 1999-2000.
Karlalið ÍA náði m.a. að komast í undanúrslit Íslandsmótsins í tvígang. Fyrst vorið 1994 þegar liðið lék í undanúrslitum gegn Grindavík á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. ÍA lék á ný til undanúrslita á Íslandsmótinu í úrslitakeppninni vorið 1998 þegar liðið mætti KR í undanúrslitum. ÍA lék gegn Haukum í úrslitum Bikarkeppni KKÍ í janúar árið 1996 þar sem að Haukar höfðu betur – og er það í fyrsta og eina skiptið sem ÍA hefur leikið til úrslita um titil í meistaraflokki í karlaflokki í keppni á vegum KKÍ.
Starf félagsins hefur aukist til muna á undanförnum árum en yngri flokkar félagsins eru í fremstu röð á landsvísu - og margir ungir leikmenn að banka á dyrnar hjá yngri landsliðum Íslands. Meistaraflokkurinn leikur í 2. deild og þar fá ungir leikmenn dýrmæta leikreynslu samhliða keppni með yngri flokkum félagsins.
Í tilkynningu frá Körfuknattleiksfélaginu kemur fram að vegleg afmælisveisla verði að bíða betri tíma en sögu félagsins verður gerð góð skil á þessu ári.
Félagið afhenti í dag styrk til verkefnsins Eitt líf og Krabbameinsfélags Akraness sem var afrakstur sölu á bolum fyrir síðustu jól.