Kristrún Bára Guðjónsdóttir, Björn Viktor Viktorsson og Karl Ívar Alfreðsson voru ansi nálægt því að landa sigri í fyrstu umferð spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur.
Lið Fjölbrautaskóla Garðabæjar og Fjölbrautaskóla Vesturlands áttust við í fyrstu umferðinni eða 32 liða úrslitum. Keppnin fór fram þann 7. janúar s.l. í beinni útvarpsútsendingu á RÚV.
Spennan var mikil en að lokum hafði FG betur gegn öflugu liði FVA og landaði þar með naumum sigri 26-22. FVA hefur ekki lokið keppni á þessu tímabili þar sem að liðið var með bestan árangur þeirra liða sem náðu ekki að sigra í 32 liða úrslitum. FVA mætir því liði Verslunarskóla Íslands á þriðjudaginn, 12. janúar, í beinni útvarpsútsendingu á RÚV, í 16-liða úrslitum.