„Þetta fór langt fram úr björtustu vonum og væntingum. Við erum himinlifandi með viðtökurnar og þetta verður án efa endurtekið,“ sagði Alexander Aron Guðjónsson í gær kampakátur á hinum sögufræga „Skagarúnti“ sem var endurvakinn í gær með miklum látum.
Alexander Aron og vinir hans stóðu fyrir viðburðinum „Bring back rúnturinn“ á Akranesi- sem var í raun sett fram sem létt grín.
Gríðarlegur fjöldi fólks mætti á bílunum sínum í gærkvöld til þess að taka þátt í því að endurvekja rúntmenninguna á Akranesi. Það tókst svo sannarlega eins og sjá má á myndböndunum hér fyrir neðan.
Alexander Aron sagði í viðtai við Skagafréttir áður en viðburðurinn fór fram að hann ætlaði sér að gróðursetja eitt tré fyrir hvern bíl sem mætti á rúntinn þetta kvöld. Hann ætlar að standa við þau orð.
„Ég fæ fólk með mér í lið í það verkefni - sem mér sýnist vera stórt. Við þurfum bara að finna eitthvað svæði til að gróðursetja og henda í nýjan viðburð að gróðursetja,“ sagði Alexander Aron í gær úr bílstjórasætinu á rúntinum á Akranesi.