Alexander Aron og félagar þurfa að gróðursetja mörg hundruð tré

„Þetta kvöld fór langt fram úr mínum björtustu vonum og þetta var stórskemmtilegt í alla staði – og takk fyrir Skagamenn,“ segir Alexander Aron Guðjónsson sem kom hreyfingu á Akurnesinga s.l. miðvikudagskvöld þegar viðburðurinn „Bring back rúnturinn“ fór fram með frábærum undirtektum.

Alexander Aron sagði í aðdraganda viðburðarins að hann ætlaði að gróðursetja eitt tré fyrir hvern bíl sem mætti á rúntinn og hann ætlar svo sannarlega að standa við orð sín.

„Eins og áður hefur komið fram fór þetta fram úr okkar björtustu vonum. Við reyndum að telja bílana eftir bestu getu og þegar talan var komin upp í 240 bíla þá var erfitt að halda utan um talninguna. Við mundum hreinlega ekki hvort við værum búin að telja suma bíla þegar þeir voru sem flestir. Það var líka fólk úti á landi sem tók þátt og einnig Skagamenn erlendis. Þeir aðilar voru að rúnta á sínum svæðum og tóku þar með þátt. Við bætum þeim við töluna og ætli við endum ekki í 250-300 trjám,“ segir Alexander Aron og bætir því við að næsta mál á dagskrá sé að koma sér í samband við Skógræktarfélag Akraness.

„Við þurfum að finna leiðir og tíma til þess að fá öll þessi tré. Þegar því ferli er lokið þá blásum við til viðburðar á ný þar sem að „Bring back rúnturinn“ hópurinn fer í skógarferð saman og hendir niður nokkur hundruð trjám í skemmtilegu gróðursetningarátaki.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/01/14/bring-back-runturinn-slo-i-gegn-a-skaganum-verd-allt-arid-ad-grodursetja-tre/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/01/08/aetla-ad-grodursetja-eitt-tre-fyrir-hvern-bil-sem-eg-se-a-runtinum-thetta-kvold/