Þorrablót Skagamanna sló í gegn – mörg þúsund fylgdust með skemmtuninni

„Þetta kvöld fór fram úr okkar björtustu vonum og við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá þeim sem fylgdust með streyminu í útsendingunni. Við renndum blint í sjóinn með þetta allt saman – enda hefur þetta aldrei verið gert áður. Sem betur fer tókst þetta – og þar eiga svo sannarlega margir hrós skilið fyrir þeirra framlag,“ segir Karen Lind Ólafsdóttir en hún var ein af fjölmörgum Skagamönnum sem komu að undirbúningi og framkvæmd Þorrablóts Skagamanna 2021.

Sjötíu og níu Menningarfélag hélt um stjórnartaumana á Þorrablóti Skagamanna en þetta er í fyrsta sinn sem árgangur 1979 er í aðalhlutverki á þessum menningarviðburði.

Karen segir að frábærar viðtökur á streyminu skilji eftir margar skemmtilegar spurningar varðandi framhaldið á næsta ári.

„Það er alveg ljóst að áhuginn er til staðar hjá Skagamönnum nær og fjær að taka þátt með þessum hætti. Við höfum velt fyrir okkur allskonar sviðsmyndum hvað framhaldið varðar. Við teljum að það hafi á bilinu 3000-4000 manns horft á streymið - sem er metþáttaka á Þorrablóti Skagamanna. Það hafa verið á bilinu 650-700 manns í íþróttahúsinu við Vesturgötu á „venjulegu blóti“.

Karen segir að þorrablótsnefndin hafi nú þegar viðrað margar skemmtilegar hugmyndir með útfærsluna á blótinu á næsta ári.

„Það eina sem er öruggt er að við ætlum að skoða alla fleti á þessu í framhaldinu. Kannski verður niðurstaðan að við getum blandað þessu öllu saman – beinu streymi og fjörugri samkomu í íþróttahúsinu. Á þessum tíma eru margar hugmyndir á lofti og við munum finna einhverja skemmtilega nálgun á næsta ári.“

Skipulegsnefndin var himinlifandi með viðtökur fyrirtækja og stofnana í aðdraganda Þorrablótsins.

„Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn sem fyrirtæki og stofnanir sýndu þessu verkefni. Happdrættið var vinsælt og það væri ekki hægt að gera slíkt án öflugra fyrirtækja sem lögðu okkur lið. Einnig viljum við þakka veitingahúsunum, Gamla Kaupfélaginu og Galito – fyrir þeirra aðkomu með frábærum matarbökkum. Og að sjálfsögðu fá íþróttafélögin og aðrir sjálfboðaliðar miklar þakkir fyrir aðstoðina við að koma þessu öllu til skila.“

Eins og áður segir komu margir að skipulagningu á útsendingunni og segir Karen að „mennirnir á bak við tjöldin“ hafi sýnt snilldartakta.

„Það var krefjandi verkefni að koma þessu öllu saman. Og við eigum gríðarlega öflugt teymi sem græjaði þetta með sóma. Það var t.d. bein útsending frá söngnum á Bárugötunni þar sem að „Pungarnir“ sungu upphafslagið. Það voru margir sem héldu að það væri búið að taka það atriði upp – en það var í „þráðbeinni“ og skilað sér vel heim í stofu til þeirra sem fylgdust með.

Auglýsingarnar frá fyrirtækjunum í umsjón Idda Bidda bjó til skemmtilega stemningu og eftirvæntingu. Söngatriðin voru einnig stórskemmtileg og Hannibal Hauksson var t.d. textasmiðurinn í lögunum sem Halli Melló flutti og einnig hjá prestunum þremur,“ sagði Karen Lind Ólafsdóttir við Skagafréttir.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá Þorrblótsnefndinni og ÍATV frá Báran Brugghús þar sem að útsendingin fór fram.