Ásmundur verður aðstoðarþjálfari Þorsteins hjá A-landsliðs kvenna

Þorsteinn Halldórsson er nýr þjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu. Hann var áður þjálfari kvennaliðs Breiðabliks – og hefur hann nú þegar hafið störf.

Aðstoðarmaður Þorsteins verður Ásmundur Haraldsson, þjálfari Kára á Akranesi, en Ási Haralds þekkir vel til A-landsliðs kvenna en hann var aðstoðarþjálfari liðsins á árinum 2013-2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.

Þorsteinn, sem er fæddur árið 1968, er reynslumikill þjálfari með UEFA A þjálfaragráðu. Þorsteinn hafði þjálfað hjá KR í fimm ár þegar hann tók við meistaraflokksliði kvenna hjá Breiðabliki árið 2014, en hafði áður m.a. starfað hjá Þrótti og Haukum. Hann stýrði liði Breiðabliks til Íslandsmeistaratitla árin 2015, 2018 og 2020, og til bikarmeistaratitla árin 2016 og 2018. Liðið komst einnig í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar árið 2019. Þorsteinn á sjálfur að baki yfir 200 leiki, þar af 150 í efstu deild, í meistaraflokki með Þrótti N., KR, FH og Þrótti R. og hefur leikið fyrir U19 og U21 landslið Íslands.

Fyrstu leikir A landsliðs kvenna á árinu 2021 eru þrír leikir á æfingamóti í Frakklandi, en þar mætir liðið Frakklandi, Sviss og Noregi. Undankeppni HM 2023 hefst síðan í haust, en dregið verður í riðla í vor.

Skagatengingin er við marga af þjálfurum kvennalandsliðsins í gegnum tíðina. Vanda Sigurgeirsdóttir var leikmaður ÍA á sínum tíma, líkt og Helena Ólafsdóttir – sem er núverandi þjálfari mfl. kvenna hjá ÍA. Logi Ólafsson þjálfaði m.a. karlalið ÍA á sínum tíma og Sigurður Ragnar Eyjólfsson lék með liði ÍA á árum áður.

Þjálfarar kvennalandsliðsins frá upphafi:

Sigurður Hannesson 1981-1984
Sigurbergur Sigsteinsson 1985-1986
Aðalsteinn Örnólfsson 1987
Sigurður Hannesson og Steinn Mar Helgason 1992
Logi Ólafsson 1993-1994
Kristinn Björnsson 1995-1996
Vanda Sigurgeirsdóttir 1997-1999
Þórður Georg Lárusson 1999-2000
Logi Ólafsson 2000
Jörundur Áki Sveinsson 2000-2003
Helena Ólafsdóttir 2003-2004
Jörundur Áki Sveinsson 2004-2006
Sigurður Ragnar Eyjólfsson 2007-2013
Freyr Alexandersson 2013-2018
Jón Þór Hauksson 2018 – 2020
Þorsteinn Halldórsson 2021 –