„Kveð með miklum söknuði“

Eins og fram hefur komið tekur Sr. Jónína Ólafsdóttir við stöðu sóknarprestrs við Hafnarfjarðarprestakall. Jónína segir í tilkynningu sem hún sendi frá sér að um erfiða ákvörðun hafi verið að ræða en Jónína tók við starfi prests í Garða – og Saurbæjarprestakalli í byrjun ársins 2020.

Kveðjan frá Sr. Jónínu er hér fyrir neðan:

Kæru vinir í Garða- og Saurbæjarprestakalli.

Í lok október á síðasta ári ákvað ég að sækjast eftir stöðu sóknarprests við Hafnarfjarðarprestakall. Þetta var erfið ákvörðun en eftir langt og strangt umsóknarferli fékk èg þær fréttir í síðastliðinni viku að ég hefði verið valin í starfið. Tækifærin koma ekki alltaf á þeim tímum sem eru manni hentugastir og hefði èg mjög gjarnan viljað stoppa lengur við í ykkar ágæta prestakalli þar sem mér hefur verið afskaplega vel tekið.

Um leið og ég kveð ykkur vil ég þakka einstök kynni á liðnu ári hér í prestakallinu. Það var mér mikil gæfa að fá að þjóna þessu vaxandi prestakalli og fá að vinna með því góða fólki sem starfar í söfnuðunum fjórum. Hér hef ég kunnað afskaplega vel við mig og mun kveðja með miklum söknuði. Mig langar sérstaklega að fá að þakka samstarfsfólki mínu við Akraneskirkju samfylgdina og einstaklega gott samstarf.

Kærar kveðjur,
Sr. Jónína Ólafsdóttir

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/01/23/sr-jonina-kjorin-sem-soknarprestur-i-hafnarfjardarkirkju/