Framkvæmdir að nýjum leikskóla Skógarhverfi hófust í lok síðustu viku þegar fyrsta skóflustungan var tekin. Fjölmennur hópur leikskólabarna úr Garðaseli tóku þátt í athöfninni.
Leikskólinn verður um 1550 fermetrar en byggingin verður á 2 hæðum. Til samanburðar er gólfflöturinn í íþróttasalnum við Jaðarsbakka um 800 fermetrar.
Alls verða sex deildir á leikskólanum og er möguleiki að bæta við tveimur deildum til viðbótar.
Skólalóðin er um 3000 fermetrar og verður hún að hluta til ofan á suðurálmu hússins.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Valgarður Lyngdal Jónsson formaður bæjarráðs, Bára Daðadóttir formaður skóla- og frístundaráðs, Ragnar Sæmundsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Sandra Margrét Sigurjónsdóttir varaformaður skóla- og frístundaráðs, Valgerður Janusdóttir sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Ingunn Ríkharðsdóttir leikskólastjóri og Ingunn Sveinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri tóku einnig þátt í athöfninni ásamt börnunum úr Garðaseli.
Arkitektar Batterýis eru hönnuðir leikskólans en hönnun lóðar er í höndum Landslags. Verkís sér um burðarvirkið, loftræstikerfi og lýsingu ásamt hljóðhönnun.
Leikskólarnir á Akranesi eru:
Akrasel (6 deildir, 150 börn og 40 starfsmenn).
Garðasel (3 deildir, 74 börn og 22 starfsmenn).
Teigasel (3 deildir, 74 börn og 20 starfsmenn).
Vallarsel (6 deildir, 143 börn 40 starfsmenn).