Brynhildur Traustadóttir, sundkona frá Akranesi, stendur sig vel með skólaliðinu University of Indianapolis þar sem hún stundar háskólanám.
Um síðustu helgi fékk Brynhildur viðurkenninguna „Nýliði ársins“ þegar hún keppti á „The Great Lakes Valley Conferance Championships.“
Brynhildi hefur gengið vel með keppnisliði sínu og er hún í lykilhlutverki á mótum með skólaliðinu. Lið hennar setti m.a. mótsmet og skólamet á umræddu móti í 4×200 metra boðsundi.
Brynhildur bætti árangur sinn um 17 sekúndur í 1000 yarda skriðsundi þar sem hún kom í mark á 10 mínútum, átta sekúndum og 59 hundraðshlutum úr sekúndu. Hún endaði í 5. sæti en 1000 yardar eða stikur eru 914.4 metrar.
Í 500 yarda skriðsundi (457.2 metrar) bætti hún árangur sinn um 7 sekúndur og endaði í 6. sæti. Í 200 yarda skriðsundi (182.88 metrar) bætti Brynhildur sig um 1,5 sekúndur og endaði hún í 7. sæti.
Skagakonan keppti einnig í 1650 yarda sundi í fyrsta sinn (1508.76 metrar) og kom hún í mark á 17 mínútum, 4 sekúndum og 61 hundraðshlutum úr sekúndu – hún endaði í 5 sæti.